Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[21:29]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður nefndi er skortur á fagmenntuðu starfsfólki sem stendur geðheilbrigðisþjónustu fyrir þrifum. Mikill skortur er á hjúkrunarfræðingum og geðlæknum og erfitt hefur reynst að manna vaktir á sama tíma og verkefnum hefur fjölgað. Mannekla í heilbrigðiskerfinu er því miður ekki bundin við geðheilbrigðissvið en þó virðist það vera að ekki sé eftirsóknarvert að sérhæfa sig á því sviði og spurning hvort stjórnvöld þurfi ekki að skoða starfsumhverfi eins og t.d. laun og starfsaðstöðu heilbrigðisstarfsfólks til að laða fólk að. Það er bara ekki hægt að líta fram hjá því að þessir þættir skipta gríðarlega miklu máli og hafi það einhvern tímann verið hægt þá er ekki lengur svo að hægt sé að treysta á að fagfólk vinni við óviðunandi aðstæður og léleg laun af hugsjóninni einni saman.

Hv. þingmaður nefndi að í haust hæfist nám í geðheilbrigðisfræðum, sem er verulega gott, en þar er þá væntanlega um a.m.k. fjögurra ára nám að ræða og vandinn er gríðarlegur núna. Í skýrslu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir að mikilvægt sé að hugað sé betur að nýliðum og menntun fagfólks í þessum stéttum og þess gætt að starfsaðstæður og umhverfi laði fólk til starfa í geðheilbrigðisþjónustu. Fjölmargt heilbrigðisstarfsfólk vinnur ekki á heilbrigðisstofnunum af því að það hefur hreinlega gefist upp á aðbúnaði og launum. Hvernig eigum við að tryggja að þegar þetta fólk útskrifast skili það sér til starfa? Hvernig getum við gert þessi störf aðlaðandi og eftirsóknarverð? Stórt er spurt.