Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[21:31]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það eru nokkur atriði sem mig langar að nefna. Ég held að fagráð um mönnun og menntun sem tók til starfa fyrir rúmu ári síðan skipti mjög miklu máli varðandi alla framtíðarsýn um mönnun heilbrigðisþjónustunnar. Það er auðvitað þannig að það hefur sýnt sig að það er ekki endilega skortur á áhuga heldur skortur á námsplássum. Það hefur ekki verið hvatning hér til að mennta sig t.d. til starfa við geðheilbrigðisþjónustu, það hafa ekki verið námspláss. Við fengum þær upplýsingar á fundi velferðarnefndar í síðustu viku að þetta nám við Háskólann á Akureyri, sem er á mastersstigi og er þá tveggja ára nám ofan á grunnnám í hjúkrun, aðsóknin í það er tvöföld á við námsplássin sem eru í boði. Það vantar því ekki áhugann. En auðvitað tekur þetta allt sinn tíma og þó að þarna séu aðeins tvö ár, sem er sennilega skemmsti tíminn sem um ræðir, þá munu það verða tímamót. Þetta verður vonandi ekki eina árið sem það verður í boði en það verður hugsanlega ekki tekinn inn nýr hópur árlega vegna þess að það tekur einhvern tíma að fara í gegnum þetta. En við höfum líka séð að á síðustu árum hefur námsplássum verið að fjölga hér innan lands fyrir lækna og hjúkrunarfræðinga í öðrum greinum. Það vantar ekki aðsóknina og ég held að við séum á réttri leið. En þetta tekur sinn tíma og það þarf þolinmæði til þess að halda út og halda áfram að bæta við plássum og búa til nýtt fólk.