Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[21:55]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Frú forseti. Það er víða pottur brotinn í geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi árið 2022. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar er geta stjórnvalda til að tryggja nauðsynlega þjónustu undir væntingum og bið eftir þjónustu of löng og ekki í samræmi við markmið stjórnvalda. Einnig er fjallað um að það skorti yfirsýn í málaflokknum og að nauðsynlegar upplýsingar liggi ekki fyrir auk þess sem stefnumótun í málaflokknum hafi verið rýr og ekki skilað tilætluðum árangri. Þessi skýrsla er þungur áfellisdómur og ljóst að grípa þarf til aðgerða án tafar. Meðal þess sem Ríkisendurskoðun dregur fram er mannekla og skortur á sérhæfðu starfsfólki, svokölluð grá svæði, biðlistar, skert aðgengi að þjónustunni, ekki síst úti á landi, ábyrgð og hlutverkaskipting milli þjónustuaðila ekki nógu vel skilgreind og stuðla þurfi að betri samvinnu, þverfaglegum vinnubrögðum og samfellu í þjónustu.

Það er margt sem slær mann við lestur skýrslunnar. Mannekla í heilbrigðiskerfinu er því miður ekki bundin við geðheilbrigðissviðið en þó virðist vera að það þyki jafnvel minna eftirsóknarvert að sérhæfa sig á því sviði og spurning hvort stjórnvöld þurfi ekki að skoða starfsumhverfi eins og t.d. laun og starfsaðstöðu geðheilbrigðisstarfsfólks til að laða fólk að. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að þessir þættir skipta gríðarlega miklu máli og hafi það einhvern tímann verið hægt er þá ekki lengur svo að hægt sé að treysta á að fagfólk vinni við óviðunandi aðstæður og léleg laun af hugsjóninni einni saman.

Hin svokölluðu gráu svæði eru skelfileg, að við séum enn árið 2022 að neita fólki um lífsnauðsynlega þjónustu sem það á rétt á vegna þess að ríki og sveitarfélög eru að þrasa um hver beri kostnaðinn og að þjónustuveitendur vísi hreinlega erfiðum og kostnaðarsömum málum frá sér nær ekki nokkurri átt. Lítilsvirðingin gagnvart fólki, einstaklingum sem standa verulega höllum fæti í lífinu, sem kristallast í svona þrasi um kostnað nær ekki nokkurri átt. Þarna verða aðilar að gyrða sig í brók og setja einstaklinga í forgang. Þeir verða að fá þjónustuna. Það er númer eitt, tvö og þrjú og deilur um kostnað mega og eiga aldrei að koma í veg fyrir það.

Biðlistar eru svo annar vandi sem engan enda virðist ætla að taka frekar en listarnir sjálfir. Biðlistar eru alls staðar slæmir og að þeir skuli yfirleitt vera til staðar í heilbrigðiskerfinu er okkur til háborinnar skammar. Samtökin Þroskahjálp töluðu um að það vantaði alveg úrræði fyrir fólk með þroskaraskanir, einhverfu og sértækan vanda. Þau sögðu að flóknum málum væri iðulega vísað frá og einhvern veginn lentu þannig mál milli skips og bryggju og engin tæki eða bæri ábyrgð á því. Einnig nefndi Þroskahjálp að þeim sem væru með sértækar geðraskanir væri oft vísað frá, jafnvel þó að þeir væru bara að leita hjálpar vegna algengra kvilla eins og t.d. kvíða. Það er ekki annað hægt en að líta á þannig viðhorf sem alvarlega fordóma gagnvart fólki með þroskahamlanir. Miðað við þetta er einfaldlega ekki hlustað á þá einstaklinga. Þetta eru dæmi um fordóma sem við þurfum að útrýma, ekki hvað síst úr heilbrigðisþjónustunni.

Svo eru það börnin og þjónustan við þau. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar stendur þetta um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, með leyfi forseta:

„BUGL veitir börnum og unglingum með flókinn og samsettan geðvanda eða alvarleg geðræn einkenni margvíslega þjónustu. Á göngudeild BUGL starfar bráðateymi, göngudeildarteymi, átröskunarteymi, transteymi og taugateymi. Ekki er opin bráðamóttaka á BUGL en utan starfstíma bráðateymisins er tekið á móti börnum í bráðum vanda á Barnaspítala Hringsins og bráðamóttökunni í Fossvogi.

Þegar þjónusta í nærumhverfi barna, á sérfræðistofnunum eða á göngudeild nægir ekki sinnir legudeild BUGL börnum og fjölskyldum þeirra sem þurfa á tímabundinni innlögn að halda. Börn í efri bekkjum grunnskóla og eldri eru fjölmennasti hópurinn sem þarf á innlögn að halda. Helsti vandi þeirra sem leggjast inn eru sjálfsvígshugsanir og -tilraunir, alvarlegt þunglyndi og kvíði, skólahöfnun, geðrof og sveiflusjúkdómar.“

Mig langar að endurtaka að helsti vandi þessara ungmenna eru sjálfsvígshugsanir og -tilraunir, alvarlegt þunglyndi og kvíði, skólahöfnun, geðrof og sveiflusjúkdómar. Ég hef reynt að setja mig í spor foreldra með barn í sjálfsvígshættu sem fá ekki hjálp fyrir barnið sitt, en ég get það ekki. Ég get hreinlega ekki ímyndað mér hvernig þeim líður svo ekki sé nú talað um líðan barns sem er á þessum stað. Það að láta barn bíða er ekki ásættanlegt. Hvert einasta ár í lífi barna er gríðarlega dýrt því bernskan er stutt. Við megum ekki sætta okkur við það að í leik- og grunnskólum séu börn sem þurfa hjálp og fái hana ekki í þeim mæli sem þarf vegna þess að það skortir fjármagn sem kemur ekki nema það komi greining. Þarna þarf líka að auka samstarf við skóla og kannski taka mark á fólkinu sem er með börnin í marga klukkustundir á dag því ég hef ekki enn hitt kennara sem er hissa á greiningu sem barn fær. Raunveruleikinn sem heimilið, skólinn og barnið býr við er sá sami, hvort sem búið er að setja lögvarinn stimpil á stöðuna eða ekki. Stimpillinn kemur yfirleitt ekki fyrr en eftir dúk og disk og þá hefur dýrmætur tími tapast og skaðinn jafnvel aukist til muna. Meðalbiðtíminn á BUGL var 17,9 mánuðir árin 2020–2021 og hafði þá lækkað úr 20,1 mánuði, sem er vissulega framför en þó alls ekki ásættanlegt.

Mig langar til að hvetja til að geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga verði stórlega efld. Ef áform um snemmtæka íhlutun eru eitthvað meira en orðin tóm þá hlýtur íhlutunin að þurfa að eiga sér stað í leik- og grunnskólum og þá þarf að hlusta á það sem sérfræðingarnir sem vinna með börnin allan daginn segja, kennararnir sjálfir, og veita fjárveitingar til aðstoðar inn í bekki með viðkomandi barni, þó að stimpilinn frá hinum sérfræðingunum vanti þannig að skólinn geti í raun veitt nemandanum sem um ræðir þá aðstoð og hjálp sem á þarf að halda án þess að það bitni á þeirri kennslu og þjónustu sem aðrir nemendur í bekknum fá.

Það sem situr eftir er að það er víða pottur brotinn og þörf á aðgerðum, ekki hvað síst í málefnum barna og unglinga sem glíma við einhvers konar geðraskanir. Við þurfum svo sannarlega að gyrða okkur í brók.