Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:05]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir andsvarið. Já, það þarf virkilega að huga að málum barna og unglinga, bæði þeirra sem eru með einhvers konar geðraskanir eða geðrænan vanda en líka þeirra sem búa á heimilum þar sem foreldrið eða umönnunaraðili er með geðrænan vanda. Ég held að það þurfi virkilega að efla skólana í þessu samhengi og eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan þarf að fara að hlusta á það fólk sem er í nærumhverfi barnanna, kannski ekki fjölskyldunnar heldur inni í skólunum, hlusta á kennarana og starfsfólk þar sem er með þessum börnum og verður vart við það sem er í gangi. Þá þarf að hlusta. Þá má ekki bara segja: Já, þetta verður skoðað þegar vandinn versnar, og þá kemst barnið svo kannski fyrir rest á einhvers konar biðlista eða lendir í einhvers konar svartholi af því að barnaverndarnefnd er látin vita og enginn veit hvað gerist eftir það. Það þarf að vinna í þessum málum í gegnum skólanna og að mínu mati þarf að treysta svolítið á það sem fagfólk þar, kennararnir, segir. Með fullri og mikilli virðingu fyrir sálfræðingum og öðrum sem að þessum málum koma þá líður oft of langur tími áður en gripið er til aðgerða af því að það er ekki kominn, eins og ég orðaði það, stimpillinn á barnið og á meðan er því við ramman reip að draga, svo ekki sé fastar að orði kveðið, í skólanum og barninu versnar enn.