Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög umhugsunarvert sem hv. þingmaður er að benda á. Eitt af því sem kemur fram í skýrslunni og fær jákvæða og góða umfjöllun eru geðheilsuteymin nýju en okkur vantar þannig teymi, þannig utanumhald utan um börn og ungmenni þegar kemur að geðheilsu þeirra. Ég geri mér grein fyrir að farsældarlögin eiga að einhverju leyti að taka á þessu en við verðum að grípa börnin í sínu nærumhverfi. Stundum eru foreldrar hreinlega ekki færir um að veita þá aðstoð sem þarf að veita og þá auðvitað grípur barnavernd og félagsþjónustan inn í. Það er svo dapurlegt að þegar fagfólk sem vinnur með börnum, hvort sem það er í skólum, leikskólum, grunnskólum, íþróttastarfi eða öðru tómstundastarfi, verður þess áskynja að barn þarf á hjálp að halda þá sé ekki greið leið, t.d. í göngudeildarþjónustu á barna- og unglingageðdeild, ef það er það sem þarf, eða greið leið í aðra þjónustu, fjölskyldumeðferð eða annað sem væri hægt að bjóða upp á, heldur taki við mánaða bið, stundum áralöng bið. Það er þyngra en tárum taki. Ég veit ekki hvernig á að orða það öðruvísi af því að sóunin sem verður í samfélaginu við þessar aðstæður er svo hrikaleg. Við erum að tala um stóran hluta af þroskaskeiði barns og ungmennis sem getur gert gæfumuninn í lífi þess, getur gert gæfumuninn í því að það nái heilsu eða nái utan um erfiðleika sem steðja að í fjölskyldunni. Það að við bjóðum upp á þessa bið er eiginlega ófyrirgefanlegt.