Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:34]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get alveg tekið undir það að þetta er mikið og stórt úrlausnarefni og svo við skoðum þetta allt saman í samhengi þá vantar mikið fjármagn til að laga það sem aflaga hefur farið samkvæmt Ríkisendurskoðun. Á sama tíma erum við að horfa fram á einhvern niðurskurð í fjármálaáætlun og á sama tíma, og vitna ég nú enn einu sinni til þess sem kemur fram í skýrslunni, eru framlög til geðheilbrigðismála rétt tæp 5% af öllu því sem fer til heilbrigðismála en umfang geðvandans er 30%. Það er alveg gríðarleg skekkja þarna. Ég kalla ofureinfaldlega eftir því að ríkisstjórnin afgreiði þetta mál og setji það svolítið vel niður fyrir sér hvernig menn ætla til að mynda að brúa þetta bil á sama tíma og það er verið að fara að skera niður fjármuni eins og menn hafa verið að tala um og vísa þá auðvitað í þessa hagvísa og hagtölur sem eru að birtast okkur og segja okkur allt um það hvernig staðan verður í framtíðinni. (Forseti hringir.) Þannig að ég vil bara endurtaka spurningu mína: Hvernig eigum við að fara að þessu?