Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:50]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir þetta. Það er mjög gaman eða áhugavert skulum við segja, við skulum nota rétt orð, að velta fyrir sér þessu samspili á milli meðferðar og þess sem hv. þingmaður nefnir um afglæpavæðingu. Ég hef oft velt þessu fyrir mér og ég þekki þessi mál alveg prýðilega frá ýmsum hliðum. Í staðinn fyrir að refsa fólki sem er tekið með ólögleg vímuefni, og þá erum við ekki að tala um í kílóavís, ætti að vera til einhvers konar úrræði sem hjálpaði fólki, til að mynda úrræði sem gæti verið í þá veru, hefur maður velt fyrir sér, að í staðinn fyrir að menn taki út refsingu eða eitthvað geti þeir farið í meðferð. En hvernig ætti að vera hægt að bjóða upp á slíkt úrræði þegar meðalbiðtími eftir plássi er 40–50 dagar? Þeir sem eru í forgangi fá þjónustu eitthvað fyrr en hámarksbið er um 300 dagar. Þessir fíklar sem við erum að tala um þarna er oft fólk sem er ekki í forgangi vegna þess að það er oft fólk sem hefur farið mörgum sinnum í meðferð. Sumir hafa farið í tugi skipta í meðferð. Það er auðvitað ákveðið samspil þarna á milli sem þyrfti að vera.

Varðandi hins vegar það sem hv. þingmaður kom aðeins inn á, áfengið annars vegar og ólögleg vímuefni hins vegar, þá er þetta fyrir heilann í öllu fólki bara nákvæmlega sami hluturinn. Þegar við erum að tala um þessi mál út frá einhverri siðfræði þá gerum við greinarmun á áfengi annars vegar og ólöglegum fíkniefnum hins vegar af því að það er bara bundið í menningu okkar og það allt saman, en heilinn í okkur, sem er auðvitað móttakarinn á efnunum, spyr ekkert að því hvort efnið sé löglegt eða ólöglegt. Það að vera að búa til svona rosalega miklar girðingar, annars vegar á milli þess sem er ólöglegt og það sem er ólöglegt þegar við erum að fást við sjúkdóm sem nær yfir bæði fyrirbæri, ef við getum orðað það þannig, er auðvitað alveg ótrúlega varasamt. Ég hef verið svolítið stuðningsmaður þess (Forseti hringir.) að fara í þessa afglæpavæðingu og reyndar viljað ganga lengra að einhverju leyti. (Forseti hringir.) En það þarf að eiga sér stað mjög mikil umræða í samfélaginu áður en við getum stigið verulega stór skref í því.