Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[23:04]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta. Hér er hreyft einu atriði sem ég myndi aðeins vilja nota tíma minn í að nefna. Við erum auðvitað með SÁÁ sem veitir þá þjónustu sem þau veita. Það er þá spítalinn, Vogur, sem þar er undir; það er eftirmeðferð á Vík; það eru göngudeildir; það er viðhaldsmeðferð fyrir fólk sem glímir við ópíóðafíkn og annað. Um þetta allt eru gerðir samningar við Sjúkratryggingar en samtökin safna mjög miklu fé sjálf, sjálfsaflafé, til að standa straum af mjög miklu af því sem þau gera. Þau veita þjónustu langt umfram það sem þau fá greitt fyrir hjá ríkinu. Og eins og ég var að nefna hér með tölurnar sem ég fór yfir þá vantar talsvert mikið upp á að þarna sé jafnvægi. En það er eitt í þessu sem að mínum dómi væri líka ágætt að hafa í huga, þ.e. að þjónusta í geðheilbrigðiskerfinu, hvort sem hún er veitt af SÁÁ — alkóhólistar og fólk með fíknivanda fer líka inn á geðdeildir Landspítala og inn á göngudeildir eða fær aðstoð annars staðar. Úrræðin þurfa að vera mjög fjölbreytt og öflug og þau þurfa að vera mjög víða. Það eru ekkert allir alkóhólistar sem vilja fara á Vog en þeir eru tilbúnir til að fara í eitthvert annað úrræði og þar fram eftir götunum. Þetta er svo flókinn sjúkdómur, þetta er ekki rökrétt. Þetta er ekki eins og krabbameinssjúklingar sem vita bara að ef þeir fá krabbamein þá þurfa þeir að gera þetta og þetta. Fólkið sem er að fara í meðferð eða leita sér aðstoðar við þessum vanda glímir við alls konar ranghugmyndir í hausnum og það er búið að bíta í sig að þessi meðferð henti ekki en þessi gæti gert það o.s.frv. Það getur því verið svolítil kúnst að koma fólki fyrir.

Ég ætla að segja það hér í lokin að allt hlýtur þetta að verða okkur keppikefli til að reyna að efla þjónustuna við þennan hóp á sem flestum sviðum þannig að hún sé sem fjölbreyttust svo að þeirra sem sjá ekki fyrir sér að geta farið í eitt úrræði bíði annað í staðinn.