Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[23:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en verið innilega sammála hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Ég held að við séum bara að leysa málin, gætum gert það ef við fengjum tækifæri til þess vegna þess að það er bent á það í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar að t.d. landlæknir er ekki með neina heildaryfirsýn. Það er bent á að það er vandamál að einstakir læknar eru bara með upplýsingar og miðla þeim ekkert. Það er ekkert gegnumstreymi þannig að einhver geti haft yfirsýn nákvæmlega yfir hlutina og þess vegna gætum við þess vegna ímyndað okkur að einstaklingur í þessu kerfi gæti verið á mörgum stöðum í kerfinu að fá mismunandi hjálp en fær aldrei réttu hjálpina. Ég held að ef við myndum stokka kerfið upp, byrja frá grunni og sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að við gerum þetta rétt. Ég þekki þetta af eigin raun. Ég átti vin sem lenti inni á geðdeild og það var á þeim tíma erfitt bara að fá að vita þegar þessir einstaklingar komu út, þannig að einhver gæti tekið á móti þeim. Það kom þetta stórfurðulega svar: Nei, það er ekki hægt að láta ykkur vita af því vegna þess að persónuverndarlög leyfa það ekki. Það má ekki. En afleiðingarnar voru skelfilegar. Enginn fékk að vita. Þetta var dauðans alvara. Viðkomandi tók sitt eigið líf. Þarna var gloppa í kerfinu sem gerði þetta að verkum. Það hlýtur að vera mikil ábyrgð að útskrifa einhvern af svona stað án þess að nokkur taki á móti honum. Þetta sýnir hversu viðkvæmt þetta kerfi er og hvernig það eiginlega er bara ekki að virka.