Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[23:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson erum ekki alltaf sammála en ég var eiginlega sammála öllu sem hann sagði hér í seinna andsvari sínu. En þá að því sem ég náði ekki að fara yfir áðan. Ég ætla að nota samanburðinn við félagslegt húsnæði. Ég veit að það er annars eðlis. Þó má segja að fólk með geðræn vandamál sé kannski líklegra til að þurfa að nýta sér félagslegt húsnæði, það er kannski tengingin að vissu leyti. Við höfum séð það, ekki bara um áratugi heldur aldir, að það hvernig félagslegt húsnæði er hannað hefur mjög mikið að segja um það hvernig fólki líður, hversu vel húsnæðinu er við haldið og hversu eftirsóknarvert er að búa þar. Ég hef til að mynda skoðað félagslegt húsnæði í Belgíu frá 13., 14. og 15. öld sem enn er í notkun sem slíkt. Það eru falleg hús í fallegu umhverfi, það er eftirsótt að fá íbúð þar og íbúarnir allir sameinast um að halda umhverfinu fallegu. Á sama tíma var byggt mikið af félagslegu húsnæði á 6., 7. og 8. áratugnum sem var það óaðlaðandi að það ýtti undir félagsleg vandamál og jafnvel geðræn vandamál. Nú er verið að rífa það víða um lönd.

Umhverfið, hönnun þess, skiptir máli og hefur áhrif á einstaklingana. Ég ítreka það sem ég nefndi áðan um þennan samanburð við þjónustu vegna hinna ýmsu geðrænu vandamála eða annars sem kallar á meðferð. Í útlöndum fara þeir sem hafa efni á því í slíka meðferð í fallegu umhverfi en þeir sem hafa síður efni á því, fátækara fólk, eru sendir inn á stofnanir, kannski í einhverjum hrikalegum steinsteypukössum. Það bara virkar ekki eins vel. Þetta er eitthvað sem þarf að huga að í því heildarskipulagi, heildarsýn, sem vonandi kemur í málaflokknum.