Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa.

599. mál
[14:20]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langaði bara að lýsa yfir ánægju minni með að þetta frumvarp sé komið til 3. umr. Ég veit að þetta er frumvarp sem þingheimur allur mun styðja. Í því sambandi langaði mig að nefna að það var líka ánægjulegt að heyra fyrr í dag, ef ég man rétt, hæstv. forsætisráðherra lýsa því að skoða þyrfti betur hvað hefur verið að gerast á hinum ýmsu stöðum þar sem við höfum verið að vista fólk með fatlanir og ýmislegt annað. Ég held og vona það að við séum byrjuð að skoða þessa hluti og farin að þora að rannsaka þá og kanna þá og setja í sviðsljósið. Það er nokkuð sem skiptir rosalega miklu máli, að við horfum á þessa svörtu bletti í fortíð okkar og séum ekki að skammast okkar það mikið fyrir þá að við þorum ekki að horfa, þorum ekki að læra af þeim mistökum sem voru gerð og þorum ekki að segja „fyrirgefið þið“, og í einhverjum tilfellum að borga bætur. Því vona ég að við sjáum það gerast oftar og oftar að frumvarp eins og þetta hljóti góðar móttökur hér í þinginu og að við séum að gera upp við fortíðina og taka á okkur þá ábyrgð. Þó að hún sé ekki okkar heldur kannski forvera okkar þá erum við að taka á okkur þá ábyrgð.