Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Stutta svarið er nei, það var ekki neitt frekara mat frá ráðuneytinu varðandi auknar tekjur af þessari færslu á milli skattflokka. Þingmaðurinn talar hér um að skila hagnaðinum til íbúanna. Það er minn skilningur og okkar í nefndinni að þetta frumvarp sé þannig samansett og afleiðingar þess verði þær að fólk muni í auknum mæli fara að kaupa sér varmadælur. Það er líka vegna þess að kerfið í kringum það hefur nú verið gert einfaldara með þessu, það var stóra málið líka. Þú þarft ekki að áætla þennan ávinning og áætla tekjurnar eins og þurfti að gera af sparnaðinum og fá síðan mögulega endurgreiðslu ef hann var ekki nægur, heldur er verið að einfalda þetta kerfi miklu meira og endurgreiðsluhlutfallið er þá komið í þessa upphæð. Það er líka þannig, eins og ég kom inn á áðan í andsvari við hv. þm. Birgi Þórarinsson, að nú eru framkvæmdir utan dyra einnig orðnar styrkhæfar.

Ég held því að þetta frumvarp sé hið besta mál og mjög gott og muni hjálpa til á þessum köldu svæðum. Það verður hvati til þess fyrir íbúa til þess að fara í þessa vegferð og skipta um orkugjafa og fara í þessar varmalausnir, hvaða búnað sem menn telja bestan og vilja fara í, sem er tilgreindur þarna, þannig að þetta er klárlega partur af því að fara í orkuskiptin. Erum við að stíga nægilega stórt skref í því? Ég heyri að hv. þingmaður vill stíga stærra skref. Ég skil alveg það sjónarmið. En þetta varð niðurstaða nefndarinnar og ég fagna því sérstaklega, eins og ég sagði hér áðan, að nefndin var öll á þessu áliti í þessu stóra og veigamikla máli fyrir íbúa landsbyggðarinnar á köldum svæðum. (Gripið fram í.) Það skiptir máli.