Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:49]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ánægjulegt og gott andsvar og gaman að heyra hvernig hann rekur kostnaðinn við að hita húsnæði í Noregi. Þetta er mikill kostnaður og maður sér enn betur lífsgæðin sem fylgja hitaveitunni þegar maður heyrir þessar lýsingar á því að það verði kannski bara að kynda eitt herbergi því það sé svo dýrt að kynda allt húsið. Ég þekki það reyndar sjálfur. Ég starfaði erlendis á tímabili og bjó þar í íbúð sem var ansi köld á veturna en hins vegar varð mjög heitt á sumrin. Það er lenska hjá fólki sem þar býr að hita yfirleitt bara eitt herbergi þar sem allir halda til yfir köldu vetrarmánuðina, sem eru kannski tveir til þrír mánuðir, því það er svo gríðarlega dýrt að kynda alla íbúðina. Þetta er mjög algengt og menn sitja þá við kannski við lítinn ofn, jafnvel með teppi, og eiga kósí kvöldstund með fjölskyldunni. En þetta segir okkur enn og aftur hvað við erum lánsöm að hafa allt þetta heita vatn.

Varðandi það hvort þessi styrkveiting ætti að vera hærri: Auðvitað væri það mjög æskilegt að við gætum stutt betur við bakið á þeim sem búa á köldum svæðum til að kaupa varmadælur og lækka sinn húshitunarkostnað. Þetta er alla vega gott fyrsta skref og við sjáum þá hvernig reynslan verður af þessu. Gott væri kannski að endurmeta hana eftir nokkur ár til að sjá hvort og hvernig þetta hefur lukkast, þetta góða frumvarp, því eins og ég segi þá er það mikilvægt skref í rétta átt. Vonandi verðum við í millitíðinni búin að finna heitt vatn á þeim köldu svæðum sem nýta sér þennan styrk, og þá getum við öll glaðst yfir því.