Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[19:08]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að við hv. þingmaður séum í megindráttum algerlega sammála í öllum liðum nema kannski einum eða tveimur. Það munar afskaplega litlu á okkur.

Varðandi jöfnun búsetuskilyrða á landsbyggðinni þá þarf hv. þingmaður ekkert að efast um mína afstöðu í þeim málum. Þar erum við saman í liði. Ég held einmitt að umrætt frumvarp stígi klárlega skref í þá átt. Að mínu viti erum við, hv. þingmaður, klárlega að stíga skref til jöfnunar búsetuskilyrða á landsbyggðinni með þessu og ég held að við eigum að fagna því. Varðandi leit að jarðhita, sem við höfum rætt töluvert hér í dag og er gaman að því, þá erum við alveg sammála um það. Ég var einfaldlega að benda á að flestir sem hafa um það val, alla vega þar sem ég þekki til, taka jarðvarma og hitaveitu fram yfir varmadælur. Það er bara sú reynsla sem ég hef í þessum geira. Sá kostnaður, á hvert hús, getur hlaupið á mjög stórum tölum eða allt upp í kringum milljón, plús eða mínus. Því veigra menn sér ekki við að taka inn hitaveitu þó að hún kosti þessa peninga. Þannig að mér er stórlega til efs, hv. þingmaður og virðulegur forseti, ef sú upphæð sem hér er nefnd, þessar 200.000 kr., verði til þess að menn verði fráhverfir hugmyndinni um að taka inn varmadælur, sem ég held að sé alveg gríðarlega mikilvægt og stórt skref í átt að jöfnun búsetuskilyrða um allt land.