Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

grunnskólar.

579. mál
[21:01]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mál þar sem lagt er til að afnema tímabundið skyldu til að leggja fyrir samræmd könnunarpróf í grunnskólum, til og með 31. desember 2024. Yfir þetta var farið hér rétt áðan nokkuð rækilega út frá nefndarálitinu af hv. þm. Jóhanni Friðriki Friðrikssyni. Þetta hefur verið til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd. Einhugur ríkti um afgreiðsluna og ég sem áheyrnarfulltrúi tek undir nefndarálitið sem gerð var grein fyrir hér á undan. Það er ljóst að nýta á tímann af ráðuneytinu til þess að innleiða nýtt samræmt námsmat sem byggist á tillöguskýrslu um framtíðarstefnu um samræmt námsmat frá árinu 2020. Það var auðvitað farið svolítið yfir í nefndinni, þetta klúður sem hefur verið í kringum prófin og það óhagræði sem það hefur valdið nemendum.

En ég kem hingað upp einna helst til að vekja athygli á því að við fengum umsögn inn í nefndina frá nemendum úr 9. bekk og þeir Daníel Þröstur Pálsson og Ríkharður Flóki Bjarkason komu til okkar, og það var svolítið gaman að því og mig langar, bara til þess að hafa það skjalfest hér úr ræðustól þingsins, að fara aðeins yfir umsögnina sem þeir sendu inn. Þeir komu síðan fyrir nefndina og töluðu við okkur lengi og svöruðu spurningum nefndarmanna og höfðu nefndarmenn nokkurt gagn og gaman af því. Þeir segja, með leyfi forseta:

„Við erum einróma á því að fresta samræmdu prófi, en með því skilyrði að setja þau aftur af stað þegar það er búið að breyta því og betrumbæta. Samræmd próf eru mikilvæg til að kanna og vita stöðu menntamálakerfisins, án prófs sem allir taka vitum við ekki kunnáttu nemenda og allir nemendur myndu þá þurfa að taka ólík próf í áföngum, þetta myndi taka meiri tíma og erfitt væri að bera saman við niðurstöður fyrri prófa og niðurstöðu á milli ólíka skóla. Upplýsingar sem koma úr samræmdum prófum eru gífurlega mikilvægar til þess að vita hvaða fög þarf að leggja betri áherslu á og hvar bæta þarf menntun, það er líka mikilvægt til að kanna hvort einhverjir hópar eða fög eru að draga eftir á. En við skiljum líka vandamál samræmd próf í nútímanum. Tæknivandamál sýna sig oft og það mun tefja töku og í sumum tilvikum láta nemanda detta út og missa árangurinn sinn áður en próftöku er lokið.“

Síðan halda þeir Daníel Þröstur og Ríkharður Flóki áfram að rekja skoðanir sínar á þessu og eins og ég nefndi þá komu þeir fyrir nefndina og lögðu áherslu á sitt mál. Ég vil gjarnan halda þessu til haga vegna þess að það er mjög mikilvægt, þegar við fjöllum um mál sem snúa að hagsmunum barna og ungmenna, að hafa þau með í ákvarðanatökunni og það að þeir komu fyrir nefndina, sendu inn umsögn, gáfu nefndinni skýrslu og skoðun er ákaflega dýrmætt. Við eigum örugglega að gera meira af því að reyna að kalla eftir umsögnum og hafa þessa hópa með þegar við erum að taka ákvarðanir sem snúa að hagsmunum þeirra. Það var, af þeirra hálfu, bent á alls konar hluti sem við vorum kannski ekkert að velta mikið vöngum yfir eða komu úr öðrum umsögnum þannig að þetta er í raun og veru ein ástæðan fyrir því að ég kem hér upp, bara til að vekja athygli á þessu. Það var frábært framtak hjá þeim að senda inn umsagnir og koma fyrir nefndina. Það var dýrmætt fyrir okkur öll.

Að öðru leyti þá er auðvitað einhugur um þetta mál eins og fram kom hér rétt áðan í máli hv. þm. Jóhanns Friðriks Friðrikssonar.