Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

grunnskólar.

579. mál
[21:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég ætla að vera á aðeins öðru máli hérna og leggja til að samræmdum könnunarprófum verði einfaldlega hent í ruslið. Ástæðan er margþætt. Til að byrja með eru samræmd könnunarpróf ekki það sama og velflest okkar sem erum hér inni upplifðum í okkar æsku þar sem voru samræmd próf sem eru allt annar hlutur og voru notuð til að meta hæfni nemenda þegar kom að umsóknum í framhaldsskóla og þess háttar. Frammistaða nemenda í þessum prófum hafði bein áhrif á skólagöngu þeirra í framhaldinu. Samræmd könnunarpróf gera það ekki, þau eru eingöngu fyrir nemendurna og menntayfirvöld þegar allt kemur til alls og að einhverju leyti fyrir skólana sjálfa sem slíka.

Samræmd könnunarpróf eru ytra gæðaeftirlit gagnvart skólum. Vandamálið er að það er einfaldlega verið að svindla á því. Það eru allt of margir skólar víðs vegar um landið sem senda ekki ákveðna nemendur í samræmdu könnunarprófin, leyfa þeim að sleppa því til að skólinn komi betur út í samanburði á milli skóla. Þetta hefur verið viðvarandi í mjög mörg ár og ég þekki þetta ágætlega úr fyrri störfum mínum í Menntamálastofnun, umræðuna þar um nákvæmlega þetta atriði. Samræmdu könnunarprófin eru fyrir nemendur, svona ytra gæðaeftirlit, þ.e. að skólinn sé í raun að sinna skyldu sinni gagnvart þeim með tilliti til aðalnámskrár grunnskóla. Samræmd könnunarpróf eru í raun tæki fyrir menntayfirvöld, stjórnvöld í rauninni, Menntamálastofnun, menntamálaráðuneytið o.s.frv., til þess að hafa ytra gæðaeftirlit með skólanum. Þau eru sett upp á þann hátt að þau eiga að mæla ákveðnar framfarir samkvæmt hæfniviðmiðum aðalnámskrár. Ef skólar eru hins vegar að sleppa því að láta nemendur mæta í prófin þá er það augljóslega skekkt niðurstaða og hjálpar ekki nemendum að sjá stöðuna gagnvart öðrum skólum af því að skólinn fær ekki raunsæja mynd á árangur sinn heildstætt yfir nemendahópinn heldur einungis gagnvart þeim nemendum sem fá augljóslega leyfi til að taka prófið. Það er allur gangur á því hvernig mælt er með því að einhverjir nemendur mæti ekki í prófin eða að foreldrar haldi nemendum frá því að mæta. Sem mælitæki eru samræmdu könnunarprófin einfaldlega ónákvæm og þar af leiðandi ekki gagnleg. Þau búa bara til hausverk og vesen fyrir nemendur þegar allt kemur til alls.

Það er ákveðin hagkvæmni í því fólgin að láta alla skólana taka sama prófið út um allt fyrir fólk sem er að rannsaka framgang og gæði skóla, hvernig skólastarf þróast og reyna að fá samanburð milli ára og þess háttar. Það er hins vegar ekkert endilega réttlætanlegt að láta menntayfirvöld eða rannsakendur, sem nota gögnin úr samræmdum könnunarprófum í rannsóknir sínar, hafa það forskot að einhverju leyti. Forskot er kannski ekki endilega rétt orð heldur er aðgengi kannski nákvæmara orð yfir það. Það að stunda menntarannsóknir er einfaldlega og á að vera — ég ætla ekki að segja flóknara heldur þarf að gera eðlilegar kröfur til rannsakenda, þ.e. gæðakröfur, við menntarannsóknir. Það að nota samræmdu könnunarprófin er einfaldlega, hvað varðar persónuvernd og ýmislegt svoleiðis, frekar — það er Vísindasiðanefnd sem kvittar undir ákveðna aðferðafræði og því um líkt fyrir rannsóknir þeirra sem eru að gera einhvers konar greiningar á skólagöngu krakka.

Samræmd könnunarpróf, og í raun lög þar á bak við, gera menntavísindamönnum kleift að komast á miklu aðgengilegri hátt í efnivið í rannsóknir sínar en ef þeir þyrftu að setja rannsóknir sínar upp sjálfir og fara með þær sömu leið og allir aðrir rannsakendur á öllum öðrum sviðum, t.d. í gegnum Vísindasiðanefnd. Þá væri allt öðruvísi nálgun á rannsóknir á þessu sviði. Ég tel að þetta sé í raun hamlandi fyrir góðar rannsóknir á menntakerfinu á Íslandi. Þær eru að einhverju leyti of almennar. Þær gefa rannsakendum of auðveldan aðgang og ekki endilega á góðum forsendum. Það væri eðlilegra að hafa skýrari aðgang fyrir stjórnvöld af því að rannsakendur þyrftu að útskýra hvers vegna þeir vilja fá þau gögn sem þeir vilja fá, sem er það sem á að gerast í öllum vísindagreinum þegar þeir útskýra fyrir Vísindasiðanefnd hvers vegna þeir ætla að gera rannsóknir sínar. Það á ekkert endilega að vera auðvelt fyrir stjórnvöld að fá þessi heildargögn, hvað þá þegar þau eru eins skekkt og þau eru af því að það eru ekki allir sem taka þátt í prófunum. Menntayfirvöld eiga að þurfa að hafa fyrir því að fara í gegnum ferlið eins og allir aðrir þurfa að gera. Á þeim forsendum að samræmd könnunarpróf eru ónákvæm, út af þessari valhlutdrægni, á ensku „selection bias“, inn í prófið þá færðu ekki þær niðurstöður sem þú þarft í samanburði á milli skóla, færð í raun ekki þær niðurstöður sem þú þarft í almennum vísindarannsóknum. Ef þú tekur því sem svo að þetta sé próf úr þýðinu þá er þar villa sem er innbyggð í gögnin þegar verið er að gera greiningar á þeim. Það er ekki gott heldur. Það er frekar erfitt að reyna að leiðrétta fyrir þeim á einhvern hátt. Þú veist í raun ekki hvaða krítería var notuð sem sía, eða hvaða nemendum var sleppt. Það hefur að mínu mati of mikil áhrif á það hvað samræmd könnunarpróf eiga að geta gert. Ef þau stæðu undir því sem sagt er að þau eigi að standa undir væri þetta kannski skárra en að mínu mati er aðgengi að menntakerfinu í heild sinni samt of auðvelt. Mér finnst það ekki réttlætanlegt út af því að það býr til ákveðna leti, eða hvað maður á að segja, hjá menntavísindamönnum, satt best að segja.

Það eru til ýmis áhugaverð gögn í þessum rannsóknum sem fylgja samræmdu könnunarprófunum en þetta eru samt rannsóknir sem hægt er að gera með eðlilegri fyrirhöfn eins og allir aðrir vísindamenn þurfa að gangast undir. Ég held að það sé hollara, fyrir menntavísindafólk, fyrir nemendur, fyrir menntayfirvöld, vegna þess að þetta ytra gæðaeftirlit sem við ákveðum samkvæmt lögum að eigi að sinna — það er innra gæðaeftirlit líka og ytra gæðaeftirlit, þetta eru tveir fasar og samræmdu könnunarprófin eru einn hluti af ytra gæðaeftirlitinu. Það felst í fleiri hlutum. Starfsmenn frá Menntamálastofnun fara inn í skólana og gera fleiri kannanir og skoðanir o.s.frv., þetta er ekki eini hlutinn. En þetta er hluti sem ég held að við ættum að fara að spyrja stærri spurninga um.

Við höfum vanist því að taka samræmd próf, það er hluti af okkar uppeldi, og það býr til svo ríka hefð að við stoppum ekki og spyrjum grundvallarspurninga. Ef það væru ekki svona samræmd könnunarpróf myndum við setja þau á? Ég held að svarið sé í alvörunni: Nei, við myndum ekki gera það. Ef ekki væri fyrir þessa sögu um að við höfum gert það áður myndum við gera aðrar kröfur um það hvernig við stundum ytra gæðaeftirlit gagnvart skólum fyrir nemendur, fyrir foreldra, fyrir okkur hér inni sem samþykkjum aðalnámskrá og ýmislegt svoleiðis, hvernig sinna á því hlutverki að reka skólakerfið?

Ég legg því þetta í púkkið: Já, það er verið að seinka því að leggja fyrir samræmt könnunarpróf aftur. Ég var í því að setja upp fyrstu rafrænu samræmdu könnunarprófin fyrir nokkrum árum, 2016 væntanlega eða 2015. Það vildi svo óheppilega til að ég fór einmitt í fæðingarorlof þegar prófin fóru í gang. Fyrirtækið sem við vorum að vinna hugbúnaðinn með ráðlögðu uppfærslu sem mistókst þannig að framkvæmdin mistókst. Það var ekki gaman. Við vorum búin að vera með prufukeyrslu í skóla úti á Seltjarnarnesi, það gekk mjög vel. En svo var einmitt ráðlagt að uppfæra, ég hefði aldrei kvittað undir það. Rétt áður en þú ferð í það að leggja fyrir samræmd könnunarpróf út um allt land þá ætlarðu að fara í uppfærslu á hugbúnaðinum og keyra á það, það bara gengur ekki. Það er bara algjör bilun. Það bilaði, það var mjög gaman. Ég hélt þarna á litlum krakka, var kominn í heimsókn í Menntamálastofnun til að sjá hvernig framkvæmdin gengi. Það var áhugaverð ástæða fyrir því hvað fór úrskeiðis. Allir nemendur fá notendanafn og lykilorð, það var listi af því sem var keyrður inn í kerfið. Þeir voru allir til þarna, voða gaman, búið að prófa þetta eitthvað á einhverjum sérnotendum og svoleiðis, en enginn gat skráð sig inn, fengu í raun bara rangt notendanafn og lykilorð og ekkert gerðist. Það var einfaldlega af því að í kerfið, eftir að búið var að flytja inn allar upplýsingar um nemendurna, vantaði eitthvað svona „að vista“. Það var hægt að fara inn og opna nemandann og ýta á vista og þá uppfærðist eitthvað aðeins í gagnagrunnskerfinu. Þá gat nemandinn skráð sig inn. Það var smádisaster en rafræn könnunarpróf hafa verið ágætishausverkur síðan þá og stundum ekki alveg tekist.

Ég mæli með því fyrir geðheilbrigði ungmenna okkar, fyrir geðheilbrigði þeirra sem eru að keyra rafrænu prófin og í raun fyrir menntavísindafólk og okkur öll að taka þessi samræmdu könnunarpróf og stinga þeim í hilluna. Þetta er búið að vera ágætisprufa í allt of mörg ár, við þurfum að gera þetta öðruvísi, við þurfum að gera þetta betur.