Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

grunnskólar.

579. mál
[21:19]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Frú forseti. Ég er komin hingað til þess að fagna þessu frumvarpi. Ég er mjög ánægð með að verið sé að leggja fram frumvarp um að leggja niður samræmdu prófin, alla vega í bili, þó ekki sé nema til að eyða óvissunni. Það er mjög vont fyrir börn og unglinga að vera í óvissu um hvort prófin verði eða ekki, þannig að það er bara mjög gott að gera það. Það voru nokkrir aðilar sem sendu inn umsagnir; Barnaheill, Félag náms- og starfsráðgjafa, Samband íslenskra sveitarfélaga, umboðsmaður barna og svo, eins og hv. þm. Sigmar Guðmundsson minntist á áðan, tveir ungir nemendur úr 9. bekk, Daníel Þröstur og Ríkharður Flóki. Allir fagna þessir aðilar frumvarpinu og eru sammála um að það beri að leggja niður prófin, alla vega tímabundið. Ég get líka sagt að af því að alveg þangað til að ég settist inn á þing var ég í stjórn Félags grunnskólakennara þá veit ég að stjórn Félags grunnskólakennara styður þetta frumvarp eindregið og fagnar því.

Það var áhugavert að hlusta á hv. þm. Björn Leví Gunnarsson áðan, honum finnst að það eigi að henda þessum prófum í ruslið og það er spurning hvort það væri rétt að gera það. Sem kennari veit ég að það eru mjög skiptar skoðanir meðal kennara um þessi próf og þar hafa verið háværar gagnrýnisraddir, ekki bara gagnrýni á rafræna framkvæmd þeirra heldur bara almennt á prófin. Það var mjög áhugavert fyrir nokkrum árum, eða í rauninni bara ár eftir ár á meðan prófin voru skrifleg, að þá kom mikil gagnrýni frá kennurum á hverju einasta ári og alls konar villur sem þeir fundu í prófunum og eitthvað sem ekki gekk upp og var ekki í samræmi við námskrá og ég veit ekki hvað og hvað. Það var eins og það væri næstum því leyst með því að gera þau rafræn og nú fá kennarar ekki að skoða þau lengur þannig að það er engin svona gagnrýni núna.

Ég persónulega er ekki hrifin af samræmdu prófunum og ein af ástæðunum fyrir því er sú að mér finnst þau ekki — sem kennarar erum við alltaf að reyna að draga fram það sem börnin kunna. Við erum að reyna að draga fram sterkar hliðar þeirra. Samræmdu prófin eru einhvern veginn ekki að meta getu þeirra heldur að reyna að finna hvað þau geta ekki. Það finnst mér vera öfug leið. Það er frekar verið að leiða þau í gildrur heldur en að reyna að leyfa þeim að njóta sín. Ég missti þarna aðeins þráðinn í því sem ég ætlaði að segja, en mig langar líka að nefna það sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sagði áðan með að þetta væru ekki marktækar mælingar því að skólarnir væru jafnvel ekki að senda alla nemendur í prófin til þess að skólarnir kæmu betur út. Ég held að þetta sé ekki rétt. Skólar eru almennt, held ég, alla vega ekki í þeim skóla sem ég þekki til í, að sleppa því að senda nemendur í samræmd próf af því að þeir eru svo hræddir um meðaltal skólans. Þeir eru að hlífa ákveðnum nemendum við því að þurfa að setjast niður yfir próf sem vitað er að þeir ráða ekki við. Það er eiginlega mannvonska stundum að senda ákveðna nemendur í þessi próf. Það er eitthvað sem ég t.d. sem kennari í gegnum tíðina þekki og ég hef m.a. mikið verið að kenna börnum með námsörðugleika og stundum veit maður bara að þetta myndi brjóta viðkomandi barn niður. Ég held að það sé frekar ástæðan heldur en áhyggjur skólanna af meðaltali sínu.

Þetta var nú kannski helst það sem ég vildi segja. Ég er í sjálfu sér alveg á því að það mætti fleygja þessum prófum og aldrei taka þau upp aftur og m.a. vegna þess, og það er það sem ég ætlaði að segja áðan, að þau mæla mjög takmarkaða getu nemanda. Þau mæla mjög afmarkaða þætti. Börn eru, og við bara öll og náttúrlega ekki síst börn, samsett úr fleiri þáttum en því hvort þau séu með rosalega rökhugsun í stærðfræði. Það er það sem ég hef á móti þeim. Maður sér flotta krakka og nei, þau eru ekki sterk þarna en þau eru svo sterk á svo mörgum öðrum sviðum og það er það sem ég hef m.a. á móti þessum prófum. Það er kannski ekki til umræðu núna hvort þau verði endanlega lögð niður eða ekki, en ég fagna þessu frumvarpi.