Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[22:57]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Hún var um margt athyglisverð og mig langar að spyrja hana, varðandi fyrirspurn hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar, hvort einhver mál sem vísað var frá hefðu komið til álita. Annað sem mig langar að spyrja um, sem mér finnst mjög sérstakt við þessi lög, er að um stjórnsýsluna segir í 4. gr. um framkvæmd þessara laga, með leyfi forseta:

„Um framkvæmd laga þessara, m.a. um yfirstjórn, hlutverk Jafnréttisstofu við eftirlit með framkvæmd laganna, þ.m.t. heimild til að beita dagsektum, og um kærunefnd jafnréttismála, þ.m.t. ákvæði um kæruheimild og um málsmeðferð [...], fer samkvæmt lögum um stjórnsýslu jafnréttismála.“

Ég tók eftir því líka, varðandi sektarákvæðið, að í upphaflegu lögunum var sagt að þetta færi eftir lögum um meðferð sakamála en núna er bara vísað til þess að brot gegn ákvæðum laganna eða reglugerðum settum samkvæmt þeim varði sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

Það sem ég á erfitt með að skilja í þessu öllu saman er: Af hverju er þetta ekki bara sett inn í hegningarlögin þar sem eru t.d. ákvæði um hatursorðræðu? Varðandi hugtakið áreiti hefur hv. þingmaður bent á að þar er talað um ógnandi hegðun. Ég hefði talið að ákvæði um ógnandi og niðurlægjandi hegðun ættu raunverulega heima í hegningarlögum en ekki þessum lögum. Það sem ég skil heldur ekki í þessu, svo að maður segi bara alveg eins og er, er hvað þessi málaflokkur er að gera í forsætisráðuneytinu. Ég bara næ því ekki. Af hverju er þetta ekki í dómsmálaráðuneytinu? Við erum að fjalla hér um að verið er að bæta við ákveðnum liðum um þjóðernisuppruna og hatursorðræðu og það varðar hegningarlög. (Forseti hringir.) Við erum með þessi lög sem koma inn á það. En það er allt annað ráðuneyti, (Forseti hringir.)það er allt önnur nálgun. Ég hefði talið að þetta ætti allt heima á sama stað í stjórnkerfinu og líka í réttarvörslukerfinu hjá saksóknurum, eins og héraðssaksóknara, en væri ekki eins og aðrar sektir sem eru í sérlögum.