Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[22:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir andsvarið, áhugann á ræðu minni og spurningarnar. Það kom ekki fram í svarinu sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fékk við sínum spurningum hversu margir hefðu leitað til kærunefndar jafnréttismála. Það kom fram í svarinu að fyrirspurnin varðandi lögin hefði borist til Jafnréttisstofu og það vakti einmitt áhuga minn að þar kemur fram að einstaklingum sem hafa leitað til Jafnréttisstofu hafi m.a. verið vísað til kærunefndar jafnréttismála. Því vekur það upp spurningar um hvar þau mál enda. Þess vegna sá ég ástæðu til að fylgja þessu eftir með frekari spurningum og því orðaði ég fyrstu spurninguna mína, sem ég hef beint til forsætisráðherra, þannig að ég spyr: Hversu margir einstaklingar leituðu til kærunefndar jafnréttismála frá gildistöku laganna og hverjar voru lyktir þeirra mála? Þar leitast ég við að fá svör við því hvort það sé yfir höfuð einhver skráning á því hverjir leita til kærunefndarinnar án þess að það verði úr því eitthvert mál, vegna þess að eins og ég sagði þá vöktu svör forsætisráðuneytisins og umræður í allsherjar- og menntamálanefnd áhyggjur mínar af því að mögulega er hreinlega verið að vísa fólki frá vegna þess að það kann ekki og getur ekki. Það er náttúrlega bara skelfilegt þar sem það er akkúrat það sem þessum lögum er ætlað að koma í veg fyrir og útrýma, þ.e. mismunun á grundvelli þjóðernis og kynþáttar í tilviki gildandi laga.

Svo ég tæpi aðeins á því sem hv. þingmaður nefndi varðandi stjórnsýslumeðferðina. Ég tel þessi lög vera ofsalega góð, sérstaklega eins og þau eru varðandi vernd gegn mismunun á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna. Ég held að það sé mjög jákvætt að það sé einhver stjórnsýsluleið vegna ýmiss konar (Forseti hringir.) mismununar, áreitni og annars, þangað sem fólk getur leitað (Forseti hringir.) vegna þess að sakamál eru náttúrlega alltaf miklu þyngri í vöfum, fyrir utan það að vera í höndum hins opinbera en ekki í höndum fólksins sjálfs. Hhugurinn að baki þessu öllu saman er mjög góður og ég held að þetta sé gott kerfi (Forseti hringir.) en eitthvað gerir það að verkum að það virkar ekki.