Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[23:18]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna en verð að lýsa því yfir hér að ég er að mörgu leyti mjög ósammála honum. Ég vil ítreka að með frumvarpinu er ekki verið að innleiða bann við guðlasti. Það er ekki vilji löggjafans. Það er ekki það sem stendur til í frumvarpinu og það ber ekki að túlka þessa grein með þeim hætti. Ég hef beðið um að fá að koma á mælendaskrá og fara yfir mína afstöðu til þessa máls en mig langar bara að segja það sem formaður nefndarinnar, og við tókum þetta mál til töluverðrar umfjöllunar, að það er einmitt svo áhugavert þegar við fjöllum um svona mismununarþætti, grundvallarmannréttindi, þá er svolítið hægt að fara í hring. Það er rétt að einn umsagnaraðili velti því upp hvort það kynni að vera að þetta ákvæði væri hægt að túlka með þeim hætti að það væri bann við guðlasti, að það væri verið að innleiða aftur það bann. Svo er ekki. Við veltum þessu upp og fórum yfir þetta, fengum góðar skilgreiningar frá forsætisráðuneytinu og ég held að það sé bara mikilvægt að hafa í huga þarna að við erum að tala um mikilvæga vernd gegn því að mismuna fólki vegna trúar og lífsskoðunar. Það er það sem þetta frumvarp gengur út á.

Hv. þingmaður talaði líka um að við værum með lög um slíka vernd innan vinnumarkaðar og það eru lög sem voru afgreidd fyrir nokkru síðan. Þá var þessi mismununarþáttur hvað varðar trú og lífsskoðun einmitt inni. Þeim mun mikilvægara er að það sé líka í þeim lögum sem gilda utan vinnumarkaðar. Svo ber ég bara virðingu fyrir því að hv. þingmaður vill hafa þau lög steypt saman í ein lög; það kann vel að vera að það séu sjónarmið fyrir því, en það er bara ekki staðan í dag. Höfum við falist á það, sem ég fellst svo sannarlega á, að við eigum ekki að mismuna fólki út frá trú og lífsskoðun, og við erum búin að innleiða það í lögum um vernd á vinnumarkaði, er ekkert annað en sjálfsagt að við gerum það líka í þeim lagabálki sem varðar þessa mismununarþætti utan vinnumarkaðar.