Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[23:20]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég færði ágæt rök fyrir því hér áðan að það væri verið að innleiða bann gegn guðlasti aftur. Það liggur alveg klárt fyrir, það var forsendan fyrir því að 125. gr. hegningarlaga var afnumin, að það var verið að tala um að ekki mætti móðga fólk vegna trúar.

Ég skal bara lesa þetta upp:

„Með frumvarpi þessu er lagt til að ákvæðið verði afnumið. Fólk hefur ólíka sýn á lífið. Því er viðbúið að tjáningu sem einn telur eðlilega telji annar móðgandi.“

Hugtakið áreitni fjallar ekki um jafna stöðu fólks. Það fjallar ekki um jafna meðferð fólks. Áreitni er áreitni. Þetta er skilgreint hugtak í lögunum og þar er fjallað um móðgandi hegðun vegna trúar. Ef þú lest frumvarpið og lest skilgreininguna á áreiti eða hegðun sem tengist trú, sem hefur þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar og niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi — þá er það óheimilt samkvæmt lögunum. Það stendur beinlínis í lögunum. Það er bannað að móðga fólk vegna trúar, það er áréttað að það er bannað að móðga. Það er nákvæmlega það sem var verið að gera þegar bann við guðlasti var afnumið.

Ég var reyndar ekki á fundinum sem forsætisráðuneytið kom á, ég vil fá skriflegt lögfræðilegt álit um að það sé ekki verið að gera það. Ég er búinn að færa góð rök fyrir því í skriflegu máli með nefndaráliti. Ég hef ekki séð neitt skriflegt frá forsætisráðuneytinu um þetta. Það kemur líka fram í nefndaráliti 2. minni hluta að þetta er t.d. ekki í dönsku lögunum og það er ekkert sem segir að trú eigi að vera þarna inni, þessu er bara bætt inn í. Það er alveg klárt mál í mínum huga að ef einhvern tímann reynir á þessi lög, sem er mjög ólíklegt að verði, ég bara efast um að það verði, miðað við orð framsögumanns 2. minni hluta, þá er verið að innleiða (Forseti hringir.) bann gegn guðlasti. Yfirlýsing laganna er algerlega skýr.