Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[23:44]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því mjög að við séum sammála um það og þess vegna held ég að við ættum að geta verið sammála um að fjölga mismununarþáttunum og hafa þessi lög í samræmi við lögin eins og þau gerast á vinnumarkaði, sérstaklega í ljósi þess að þetta er einmitt það sem þáverandi allsherjar- og menntamálanefnd kallaði eftir. Ég veit að hv. þingmaður þekkir þennan málaflokk býsna vel og er löglærð. Ég hvet hana því til að koma með mér í þá vinnu ef talin er ástæða til þess að breyta skilgreiningunni á hugtakinu áreitni, ef það er eitthvað þarna sem getur gert það skýrara, því eins og ég sagði hér áðan þá er enginn vilji til þess að innleiða aftur í íslensk lög bann við guðlasti. Það ekki meiningin með þessu heldur er þetta að áreita einhvern stöðugt vegna trúar. Það er eitthvað sem við viljum ekki að sé til staðar og við viljum að lögin okkar taki á því. Ef hægt er að laga orðalag þannig að skilgreiningin á því hvað átt er við sé skýrari, hún sé skýrari gagnvart kærunefndinni eða mögulega dómstólum ef til þess kæmi, þá bara fagna ég öllum slíkum tilraunum. En ég held aftur á móti að við værum í verri stöðu ef við samþykkjum ekki þetta mál. Ég heyrði það sem hv. þingmaður sagði, hún ætti ekki að þvælast fyrir þessu, því ég held innst inni að hv. þingmaður átti sig á að þetta sé til að bæta réttarstöðuna. Hvort eitthvað megi gera enn betur og skilgreina enn betur — ég fagna ábendingum um slíkt og sérstaklega ef við getum unnið að því saman.