Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[23:50]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er með tillögu. Ég legg til að við höfum ein lög um jafna meðferð fólks utan og innan vinnumarkaðar. Við getum bara nefnt þau lög um jafna meðferð fólks og þar væri þessi réttarvernd veitt í einum lögum. Það er klárt mál að fólk hefur ekki verið að leita réttar síns samkvæmt þessum lögum. Það sýnir að það er ákveðinn galli undirliggjandi. Ég tel að allsherjar- og menntamálanefnd ætti að senda þessi skilaboð í forsætisráðuneytið: Heyrðu, þetta frumvarp — við teljum ekki að það eigi að verða að lögum. Það á að senda það til baka og segja að við viljum fá ein heildstæð lög um þá réttavernd sem við erum að fjalla um, sem ég tel vera mjög mikilvæga. Ég tel reyndar líka, og það er sannfæring mín, að svona löggjöf eigi heima í því ráðuneyti sem fer með réttarvörslukerfið, dómsmálaráðuneytið. Þeir eru með hegningarlögin, þeir eru með dómstólana undir og það er þar sem fólk á að leita réttar síns. Ég er ósammála því að það sé allt of flókið að þetta séu sakamál og fari þangað. Það getur verið miklu skýrara, miklu betri réttarvernd sem verið er að veita. Mér finnst fyrirkomulagið með þessum lögum, að þetta sé hjá Jafnréttisstofu, hálfgerður grautur. Ég bara get ekki sagt annað. Kannski hef ég rangt fyrir mér en það er tilfinning mín fyrir þessu eftir að ég er búinn að skoða þetta, en ég óskaði eftir að þetta yrði skýrt frekar. Ég fagna því að við getum rætt það frekar í nefndinni, við ætlum að vísa þessu máli til nefndar, og við gerum það síðar meir.

Ég tel líka mikilvægt, og ég vona að hv. þingmaður taki undir með mér, að ógnandi, fjandsamleg, niðurlægjandi og auðmýkjandi hegðun — við erum að nálgast hatursorðræðuréttarverndina. Þessar skilgreiningar eru það víðtækar. (Forseti hringir.) Annað sem væri gaman að heyra álit þingmannsins á er hvort tjáningarfrelsi felist ekki í því að veita fólki rétt til að (Forseti hringir.) móðga aðra, hvort rétt sé að refsa fólki fyrir móðgandi orðræðu.