Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:15]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (frh.):

Virðulegur forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið en ég held að það hafi verið sirka þar sem ég var að enda við að tala um dreifnám og ætlaði að fara í næsta lið. Ég held þá áfram. Í nefndaráliti meiri hluta er áréttað mikilvægi þess að draga úr spennu í hagkerfinu til að verja kaupmátt og ráðstöfunartekjur. Þrátt fyrir það er uppsöfnuð þörf fyrir íbúðarhúsnæði ein helsta áskorun við stjórn efnahagsmála. Útgjaldaaukning heimilanna vegna vaxandi verðbólgu kallar á að þétt sé staðið við uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Lögð er áhersla á að fjárhagslegur stuðningur vegna húsnæðis til handa þeim sem þess þurfi verði byggður á traustum áætlunum og markmiðum fjármálaáætlunar á gildistíma hennar verði fylgt eftir, stutt verði við óhagnaðardrifin leigufélög og byggingarfélög sem starfa á félagslegum grunni, hvort sem lýtur að opinberum framkvæmdum eða sjálfstæðum.

Virðulegur forseti. Eins og rakið hefur verið í áliti þessu hafa efnahagshorfur breyst töluvert frá því að áætlunin var lögð fram. Nú er gert ráð fyrir töluvert hærri verðbólgu en miðað var við í forsendum gildandi þjóðhagsspár Hagstofunnar og í því ljósi er gerð tillaga um að uppfæra áætlunina. Í breytingartillögu meiri hlutans er gert ráð fyrir að taka tillit til þess bæði á tekju- og gjaldahlið áætlunarinnar. Einnig er stefnt að því að nýta uppsveifluna í hagkerfinu til að draga hraðar úr halla ríkissjóðs en gert var ráð fyrir sem er í samræmi við markmið peningastefnu um að ná fram lækkun verðbólgu með því að draga úr þenslu í hagkerfinu. Þessum breytingum má skipta í fimm flokka og ég held að formaður fjárlaganefndar hafi farið vel yfir þá hér í sinni ræðu þannig að ég ætla að sleppa þeim og fara í lið sem er hér eftir sem segir: Að öllu samanlögðu nema gjaldabreytingar á málefnasviðum 75 milljörðum kr. til hækkunar á tímabili áætlunarinnar. Að öllu samanlögðu er gert ráð fyrir að heildarafkoma ríkissjóðs batni sem nemur á bilinu 20–30 milljörðum kr. árlega á tímabili áætlunarinnar.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið yfirferð minni um fjármál fjármálaáætlun 2023–2027 og tel ég hana gott leiðarstef til næstu ára. Síðustu ár hafa þó sýnt okkur að óvænt og ófyrirséð áföll geta haft veruleg áhrif á rekstur ríkissjóðs svo ljóst er að um áætlun er að ræða og mikilvægt að horfa á hana í því ljósi.