Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar aðeins að byrja á lokaorðum hv. þingmanns: Þetta er áætlun og ber að líta á hana í því ljósi. Ég er bókstaflega ósammála því. Þó að þetta heiti fjármálaáætlun er þetta skjal samkvæmt lögum um opinber fjármál þar sem á að birta stefnu stjórnvalda. Stefna stjórnvalda er með mjög skilgreindu formi um markmið, mælikvarða, kostnaðarmat og ábatagreiningu, forgangsröðun og ýmislegt svoleiðis. Það er ekki áætlun. Það eru markmið ríkisstjórnar sem á að ná á tíma fjármálaáætlunarinnar. Það er ekki áætlun, bara hafa það algerlega á hreinu. Það er dálítill munur á því hvað íslenskan er og hvernig hægt er að nota hana og hvað lög segja síðan.

Á þeim nótum langaði mig til að spyrja hv. þingmann: Hvernig birtist stefna stjórnvalda í þessari fjármálaáætlun varðandi ýmis lögbundin verkefni eins og að sinna löggæslu eða húsnæðismálum eða heilbrigðisþjónustu? Tökum bara löggæslu. Við höfum tiltölulega oft fengið fulltrúa löggæslu til umsagnar til fjárlaganefndar þar sem er verið að lýsa ákveðnu ekki góðu ástandi í þeim málaflokki, fjárheimildalega séð og ýmislegt svoleiðis, en við áttum okkur oft ekki á því hvaðan þörfin fyrir fjárheimildir kemur, t.d. í þeim málaflokki, af því að það er ekki útskýrt neitt sérstaklega vel. En ef það er vandamálið þar þá myndi maður vilja sjá hvert vandamálið er og af hverju það er ekki leysanlegt með t.d. forgangsröðun og þá útskýringu frá stjórnvöldum, ef það á að laga vandann. (Forseti hringir.) Hvar í fjármálaáætlun sést hvernig stjórnvöld ætla að koma til móts við þessi samfélagslegu vandamál sem við glímum við og hafa verið talin upp hérna af mörgum ræðumönnum varðandi heilbrigðismál, húsnæðismál, löggæslumál núna, það er hægt að nefna þau og margt annað?