Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:57]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta voru nokkur atriði sem vert er að skoða. Já, einhverjum stofnframlögum var skilað, ég veit ekki af hvaða ástæðum það var, kannski voru sveitarfélög, ekki öll, ekki tilbúin með lóðir eða að þessi óhagnaðardrifnu leigufélög hafi heldur ekki verið tilbúin til að ráðast í framkvæmdir. En það er í raun búið að skylda sveitarfélög til þess að í nýju skipulagi sem þau leggja fram verði að gera ráð fyrir íbúðum sem óhagnaðardrifin leigufélög byggja, ætli það séu ekki allt upp undir 25% í nýju skipulagi. Það horfir þannig við sveitarfélögum að þau verða bara að gera svo vel. Ég þekki gott dæmi úr Reykjanesbæ þar sem er verið að skipuleggja ný hverfi og þar er búið að teikna lóðir fyrir óhagnaðardrifið leigufélag. Ég veit líka til þess að leigufélagið fyrir fatlaða einstaklinga er líka að byggja þannig að sveitarfélög eru að taka við sér og skilja að það verður að gera þetta með þessum hætti. Ég held að það verði ekki skortur á því að sveitarfélög eða önnur félög sem ætla sér að byggja óhagnaðardrifið muni sækja um þessi almennu stofnframlög til framtíðar.

Hvað varðar tekjustofna þá las ég nú upp úr umsögn BHM sem mér fannst æðigóð. Þar voru tilteknar nokkrar tillögur sem gætu komið til álita og ég fæ, með leyfi forseta, að nefna þær aftur: Hækkun fjármagnstekjuskatts. Endurgreiðsla sértækra stuðningsúrræða. Það er í rauninni ótækt að mörg fyrirtæki sem stórgræddu í faraldrinum skuli hafa verið bara á ríkisstyrkjum og skilað svo hagnaði til eigenda. (Forseti hringir.) Það er bankaskatturinn, lækkun á honum dregin til baka, og síðan bara hækkun á auðlindagjöldum. Þarna er ýmislegt sem við getum beitt okkur fyrir.