Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég þekki auðvitað umræðuna um þessa skatta og hvalrekaskatta alls konar. Ég hef áhyggjur af því hvort við getum lagalega séð krafist endurgreiðslu á sértæku úrræðunum, afturvirkt, sem við vorum búin að veita. Ég er ekki viss um það. En svo er ég líka alltaf að hugsa um sveitarfélögin. Þau vantar fleiri tekjustofna til að geta mætt þeim auknu kröfum sem m.a. við hér erum að setja þeim og svo vilja þau kannski líka bjóða betri þjónustu, þannig að ég velti fyrir mér: Hvar getum við borið niður þannig að það skili sveitarfélögunum einhverjum raunverulegum tekjum? Ég hef sjálf nefnt t.d. fjármagnstekjuskatt af því að við þekkjum að það eru margir sem greiða sér einvörðungu laun í gegnum það kerfi. Sjálfri finnst mér að það gæti komið til greina. Þótt það komi líka misjafnlega niður á sveitarfélögum þá held ég að nær flest öll búi við eitthvað slíkt. En það er væntanlega ekki nóg, það gæti þurft eitthvað annað. Ég veit að þetta hefur verið til umræðu í jöfnunarsjóði m.a.

Síðan langar mig aðeins að koma að allt öðru, varðandi þessar áskoranir til framtíðar. Eitt af því sem fjármálaráð áréttar, og mig langar bara að vita hvað hv. þingmanni þykir um það, er að, með leyfi forseta: „heppilegast sé að styðja við stöðugleika í hagkerfinu frekar en að einblína á mikla nafnhækkun launa. Ráðið telur að verðbólguspá um 2,5% árið 2025 náist ekki ef niðurstaða kjarasamninga verði ekki í samræmi við undirliggjandi stöðu hagkerfisins.“ Hér er fjármálaráð aðeins að ýta við hinu opinbera um að fara ekki, eins og það nefndi, held ég, í hálfgert höfrungahlaup. Mig langar að spyrja hvað hv. þingmanni finnst um þessa ályktun fjármálaráðs.

Að lokum, Allir vinna. Vill hv. þingmaður alfarið leggja það af? Það var 60% endurgreiðsla til margra ára áður en við fórum í þetta sérstaka átak í fyrra. En myndi Viðreisn og hv. þingmaður vilja leggja það algerlega af?