Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:02]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og áður nefnir hv. þingmaður mörg atriði sem er kannski erfitt að fara yfir á tveimur mínútum. Hvað varðar tekjustofna sveitarfélaga — jú, þetta er eitthvað sem er verið að horfa til á hverjum einasta degi, hvernig við getum unnið úr þessu. Það er rétt ábending hjá hv. þingmanni að það er ótækt að fólk sem lifir á fjármagnstekjum skuli ekki borga útsvar. Það er bara algerlega ótækt. Það verður að finnast einhver lausn á því og að sveitarfélögin fái hlutdeild í fjármagnstekjunum til þess að allir sitji við sama borð eða að þessir aðilar reikni sér eitthvert endurgjald sem hægt er síðan að leggja á útsvar.

Það hefur verið talað um gistináttagjaldið. Það er ekki enn þá komið og kemur ekki á næsta ári, í það minnsta. Síðan veldur Jöfnunarsjóður sveitarfélaga verulegum erfiðleikum. Sveitarfélögin telja sig ekki fá út úr honum það sem þau þurfa til að sinna þeim málaflokkum sem þeim ber skylda til að sinna, t.d. málefnum fatlaðra. Sveitarfélagið sem ég kem frá var komið í mörg hundruð milljóna króna mínus bara út af þessu. Það er verið að veita þjónustu vegna aukinna krafna sem ríkið er búið að setja á sveitarfélögin og þau fá það ekki bætt, þessar skyldur sem hafa verið lagðar á sveitarfélögin. Við þekkjum það með NPA-samningana. Þeir hafa kostað sveitarfélögin mikla fjármuni og þær beingreiðslur sem voru auðvitað þar á undan, áður en þessir NPA-samningar komu til, þannig að sveitarfélögin hafa ekki fengið þetta bætt. Ég held að þetta séu þau mál sem ég myndi vilja skoða á þessum tímapunkti. Vonandi finnum við einhverja lausn á þessu þannig að það sé ekki alltaf verið að takast á við þetta sýknt og heilagt.

Jú, ég tel að Allir vinna eigi ekki rétt á sér á þessum tímapunkti. Það er bullandi þensla í samfélaginu. Það er skortur á iðnaðarmönnum. Þeir sem hafa nýtt sér þetta eru millitekjuhópar og hæstu tekjuhóparnir. (Forseti hringir.) Fátækt fólk nýtir sér þetta ekki. Mér finnst ótækt að milljarðar sé að renna út úr ríkissjóði á þessum tímapunkti í svona verkefni.