Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:13]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V):

Forseti. Á þensluskeiðinu fyrir kórónuveirufaraldurinn var opinberum útgjöldum leyft að aukast þannig að undirliggjandi afkoma var þegar þá orðið neikvæð. Kórónuveirufaraldurinn olli enn meiri tilslökunum og útgjaldaaukningu hjá hinu opinbera. Spurningin er: Hvenær og hvernig á að vinda ofan af þessari þróun? Fjármálaáætlun á að lýsa sýn stjórnvalda á þeim aðgerðum sem grípa þarf til nú þegar áhrif kórónuveirufaraldursins fara dvínandi, senda skilaboð um sýn ríkisstjórnarinnar í hagstjórn á komandi misserum. Því miður fer lítið fyrir því í þeirri tillögu að fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi.

En skiptir þetta máli? Skiptir máli að ríkisstjórnin geri grein fyrir sýn sinni til lengri tíma, lýsi fyrir þjóðinni hvernig hátta eigi tekjuöflun og útgjaldaþróun á komandi misserum? Já, það skiptir einmitt miklu máli. Staða ríkisfjármála er, eins og áður sagði, bágborin. Umtalsverð efnahagsleg þensla hefur einkennt undanfarin misseri eftir að draga fór úr áhrifum kórónuveirufaraldursins. Verðbólguhorfur hafa ekki verið verri um margra ára skeið.

Samkvæmt fjármálaáætlun sér ríkisstjórnin ekki ástæðu til að grípa til sérstakra aðgerða vegna þessa, senda skilaboð um sýn til næstu ára. Þensla og verðbólga virðast vera vandamál annarra, sennilega Seðlabankans. Vissulega hefur Seðlabankinn hlutverk í að stuðla að stöðugleika. Vaxtaákvörðunum Seðlabankans er ætlað að hafa áhrif á eftirspurn og væntingar um verðlagsþróun. En í hnattrænum heimi geta ákvarðanir um vaxtahækkanir hér á landi haft áhrif á hegðun fjárfesta erlendis. Hver man ekki eftir vaxtamunarviðskiptum sem keyrðu upp gengi krónunnar fyrir hrun? Lán voru tekin í myntum með lága vexti og endurfjárfest í krónum á háum vöxtum. Ísland getur illa staðist slíka strauma. Þrýstingur skapast á hækkun krónunnar sem grefur undan samkeppnishæfni og vexti til lengri tíma. Og síðan skapast hætta á að þegar ofan af þessu er undið verði snörp leiðrétting með tilheyrandi tjóni fyrir þjóðina. Slík mistök má ekki endurtaka. Seðlabankinn getur ekki einn staðið vörð um efnahagslegan stöðugleika. Hann þarf stuðning. Þetta benti kollegi minn, Gylfa Zoëga, á í nýlegri grein í Vísbendingu. Lög um opinber fjármál kveða á um að ákveðin grunngildi séu viðhöfð við að meta afkomu og skuldir hins opinbera. Grunngildin eru: Sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gegnsæi. Heldur ríkisstjórnin sig við þessi gildi? Svarið er að finna í tillögu að fjármálaáætlun sem er hér til umræðu. Þær eru umfangslitlar og óútfærðar og innihalda ekki sýn um viðbrögð eða sýn um hlutverk hins opinbera í að leiðrétta kúrsinn. Þar á að breyta litlu, svara fáum, hvorki draga úr þenslu né verðbólguþrýstingi. Ekkert bendir til þess að lærdómur hafi verið dreginn af mistökum fortíðarinnar. Samkvæmt þessari tillögu að fjármálaáætlun á sem sagt að fresta ákvörðunum um ábyrgan rekstur ríkissjóðs og áherslubreytingum í velferðarmálum og skilja það verkefni, að tryggja stöðugleika, alfarið eftir á borði Seðlabankans. Verkfærakista Seðlabankans er hins vegar takmörkuð. Njóti hann ekki stuðnings mun hann einfaldlega að þurfa að hækka stýrivexti þeim mun meira með tilheyrandi þrengingum fyrir skuldsetta einstaklinga og fyrirtæki og fyrrgreindum áhrifum á vaxtamunarviðskipti. Og til að koma í veg fyrir þau stendur Seðlabankanum fátt annað til boða en að endurvekja gjaldeyrishöft.

Ég get því ekki túlkað það öðruvísi en að það aðgerðaleysi og andvaraleysi sem fram kemur í þessari tillögu að fjármálaáætlun sé í raun ákall ríkisstjórnarinnar um endurvakningu gjaldeyrishafta. Spurningin er: Eru þingmenn sáttir við þá sýn að einungis með gjaldeyrishöftum sé hægt að viðhalda stöðugleika á Íslandi?