Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[22:34]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég ætla í þessari ræðu minni að koma inn á lið 25 Hjúkrunar- og endurhæfingarrými. Ég ætla að byrja á því, með leyfi forseta, að lesa upp málsgrein á 1. bls. þessa liðs, á bls. 389, undir málasviði 25, þar sem segir, undir fyrirsögninni Fjármögnun, með leyfi forseta:

„Stærsta verkefni málefnasviðsins er áframhaldandi uppbygging hjúkrunarheimila með bæði nýjum og endurbættum hjúkrunarrýmum. Á árunum 2023–2027 er gert ráð fyrir að tekin verði í notkun 364 ný hjúkrunarrými og 137 endurbætt rými.“

Ég verð að viðurkenna að þessi málsgrein slær mig ágætlega. Þetta væri allt annar árangur en við höfum verið að sjá undanfarin ár, undanfarin kjörtímabil, hvað varðar fjölgun hjúkrunarrýma og árangur hvað endurbætur varðar. En síðan, u.þ.b. 3 sm neðar á þessari sömu blaðsíðu, á bls. 386 er útgjaldaramminn rammaður inn til næstu fimm ára, 2023, 2024, 2025, 2026 og 2027. Það er þannig að áætluð framlög í fjárfestingu, sá hluti útgjaldarammans, eru 7,3 milljarðar á árinu 2023 en 1,6 á árinu 2027. Áætluð framlög til fjárfestinga fara niður um 77,5% innan áætlunartímabilsins. Ég er ekki meðvitaður um að það sé þannig flóð nýrra hjúkrunarrýma að koma inn í rekstur á næsta ári að það útskýri það að áætluð framlög í fjárfestingu í hjúkrunar- og endurhæfingarrýmum fari úr 7,3 milljörðum á næsta ári niður í 2,1, strax á árinu 2024, síðan 1,6 og 1,6 og 1,6. Það er bara fyrsta árið í þessari áætlun sem er með einhverri alvörutölu hér, 7,3 milljarðar, 2,1 árið eftir og síðan 1,6 út áætlunartímabilið; 77,5% lækkun framlaga sem eru áætluð í fjárfestingu í tengslum við hjúkrunar- og endurhæfingarrými.

Ég verð að viðurkenna að mér fyndist áhugavert að fá útskýringu á því hvernig ríkisstjórnin ætlar á árinu 2023–2027, sem er það tímabil sem hér er undir, að taka í notkun 364 ný hjúkrunarrými og endurbæta 137 sem er ekki miklu ódýrara en að byggja nýtt rými. Samanlagt eiga þetta að vera rétt um 500 rými, ætli það séu ekki 501 rými, þetta hefur ábyggilega verið stillt af til að heildartalan nái upp fyrir 500, svo að þetta líti vel út í texta; 501 rými og framlög til þessa fara úr 7,3 niður í 1,6 milljarða á ári og heildarframlög til hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu eru lækkandi yfir áætlunartímabilið, sem er auðvitað alveg ótrúlegt ef við horfum á stöðuna í þessum málaflokki og þróun aldurssamsetningar þjóðarinnar. Það er þannig að áætluð framlög í rekstur og tilfærslur mjakast örlítið upp á þessu tímabili, örlítið, en áætluð framlög til fjárfestinga hrynja um 77,5%.

Enn og aftur virðist hugur ekki fylgja máli og það er í raun alveg óþolandi að við séum að ræða um þessa hluti nú, undir hamri þingloka, þegar flestir vilja komast heim til sín í frí. En svör við þessum hlutum — þó að það sé orðið útjaskað orðatiltæki þá fara hljóð og mynd ekki saman, í töflunum annars vegar og textanum hins vegar. Ef sú stofnun sem heldur á þessum uppbyggingarþætti, sem snýr að uppbyggingu hjúkrunarheimila, treystir sér til þessara verka, að tryggja 501 nýtt rými á áætlunartímabilinu, á sama tíma og fjárveitingar til fjárfestingar fara niður um 77,5%, (Forseti hringir.) þá þurfum við að láta þá stofnun vinna meira en hún gerir í dag því að það er þá einhvers lags met í nýtingu fjármuna sem þarna er lagt fram.