Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[22:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Eins og ég lofaði áðan mun ég koma að borgarlínuævintýrinu og rekja stuttlega hvað þessi nýjasta áætlun ríkisstjórnarinnar segir okkur um það og hvað það mál segir okkur um eitt og annað sem þessi ríkisstjórn hefur verið að aðhafast.

Ég átti aðeins eftir að bæta við umfjöllun um landbúnaðarkaflann, um matvælaframleiðslu á Íslandi. Ekki er nóg með það að stöðugt sé verið að skerða framlög til þessarar mikilvægu greinar og með því tvímælalaust verið að skerða verðmætasköpun, því fjárfesting í landbúnaði, rétt eins og menn nefna í nefndarálitinu með samgöngur og eitt og annað fleira, skilar meiru til samfélagsins; augljóslega í gjaldeyrissparnaði, hollum og góðum matvælum og undirstöðu byggðar hringinn í kringum landið, sem er ómetanlegt í rauninni en fjármálaráðuneytið gæti kannski spreytt sig á að meta til fjár. Það er ekki nóg með að það vanti upp á þessa hagkvæmu fjárfestingu í landbúnaði og menn séu þvert á móti að skera þar niður ólíkt öðrum sviðum, heldur bætist hitt við að stöðugt er verið að leggja nýjar álögur á landbúnað. Ég er ekki bara að tala um þær gríðarlegu verðlagshækkanir sem atvinnugreinin stendur frammi fyrir nú og kallar í rauninni á neyðarviðbrögð, þegar áburður og önnur aðföng hækka eins gríðarlega og gerst hefur á síðustu misserum. Ég er líka að tala um meðvitaðar ákvarðanir stjórnvalda um að þrengja að greininni, t.d. með því að gefa eftir í viðræðum við Evrópusambandið og aðra í tollamálum, gefa eftir með hætti sem Evrópusambandið myndi aldrei gera gagnvart viðsemjendum, á einhvern hátt ítrekað, sérstaklega auðvitað í alræmdum tollasamningum frá því fyrir nokkrum árum síðan; gefa eftir nánast einhliða án þess að fá mikið á móti og veikja með öðrum orðum stöðu atvinnugreinarinnar.

Á sama tíma er stöðugt verið að auka kröfur til landbúnaðar hvað varðar aðbúnað, hvaða efni og tæki eru notuð, hvernig húsnæði er hannað og byggt o.s.frv, allir þessir stimplar sem stöðugt fer fjölgandi. Þar með er grein sem byggist á fjölskyldubúum hér á landi látin keppa við verksmiðjubú í útlöndum sem eru ekkert að elta allar þessar kröfur sem lagðar eru á greinina hér heima. Svo bætist við aukinn innflutningur, eins og var töluvert rætt hér ekkert alls fyrir löngu, á ófrosnum og ógerilsneyddum matvælum sem er enn til þess fallinn að skekkja samkeppnisstöðu greinarinnar hérna heima.

Af hverju er ég að rifja þetta upp eina ferðina enn? Vegna þess að samanburðurinn er svo sláandi, annars vegar á því hvað stjórnvöld eru raunverulega að gera og síðan þessum lýsingum í meirihlutaáliti fjárlaganefndar, eins og ég fór yfir hérna áðan. Það er engin tenging þarna á milli. Þetta eru allt umbúðir og sýndarmennska. En ef aðstæður nú og það neyðarástand sem landbúnaður á Íslandi er kominn í og hefur reyndar verið í um nokkurt skeið, jafnvel áður en þessar nýjustu hremmingar riðu yfir, vekur menn ekki til raunverulegrar vitundar umfram það að skrifa nokkrar línur í nefndarálit og verður ekki til þess að ríkisstjórnin geri eitthvað sem máli skiptir, þá mun líklega ekkert duga til.

Ég hvet nú bæði ríkisstjórnina og eins þingmenn meiri hlutans til að láta til sín taka af einhverri alvöru í þágu landbúnaðarins vegna þess að samfélagið er meira og minna að öðru leyti háð því að við getum rekið hér sterka innlenda matvælaframleiðslu. Nú er hún í neyð eftir að hafa séð okkur fyrir mat og haldið í okkur lífinu í hátt í 1200 ár og nú þarf aðgerðir, (Forseti hringir.) ekki bara nokkrar línur í nefndaráliti.