Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[22:45]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar í þessari ræðu minni að koma inn á málefnasvið 28 Málefni aldraðra. Það segir í rammagrein á bls. 414, með leyfi forseta:

„Framtíðarsýn málefnasviðsins er að aldraðir njóti lífsgæða á efri árum og geti framfleytt sér með tekjum sínum, einkum úr lífeyrissjóðum, með vinnu og/eða séreignarlífeyrissparnaði.“

Þetta eru háleit og góð markmið og hljóma vel en enn og aftur virðist ekki alltaf hugur fylgja máli. Eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur ítrekað sagt í pontu þá hafa ráðstöfunartekjur heilt yfir í þessum aldurshópi aukist á undanförnum árum. En það segir ekki alla söguna og tillaga, eða öllu heldur nálgun okkar í Miðflokknum, sem við höfum barist fyrir allt frá því að flokkurinn var fyrst kosinn á þing er að þeim sem hafa heilsu, vilja og getu til og eru komin á lífeyristökualdur verði gert kleift að vinna áfram án þess að verða fyrir jafn grimmum refsingum hvað skerðingar varðar og raunin er núna.

Þetta kemur nefnilega að atriði sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom inn á hér áðan, þ.e. hvernig mat er lagt á kostnað og hvernig iðulega gleymist að taka með í reikninginn tekjur eða sparnað sem hlýst af tiltekinnni aðgerð sem einhvern kostnað kallar á. Það hefur pirrað þann sem hér stendur mjög, árum saman, hversu treg stjórnvöld eru til að horfa á afleidd áhrif af aukinni atvinnuþátttöku fólks sem er komið á ellilífeyrisaldur. Þetta getur líka verið félagslegt og tengst því að halda líkamanum við og því tel ég alveg fullvíst, og hefur raunar verið sýnt fram á það af virtum fræðimönnum, að raunkostnaður ríkissjóðs af því að draga úr þessum skerðingum verði sennilega enginn og að öllum líkindum neikvæður þegar horft er til þeirra skatttekna sem verða til af starfi þeirra sem annars væru ekki á vinnumarkaði eða færu með einum eða öðrum hætti að sinna einhverju í hinu svarta hagkerfi.

Við eigum að gera eldri borgurum kleift að nýta starfsorku sína áfram eins lengi og þeim hugnast og við eigum að gera það aðlaðandi þannig að ekki sé stöðugur slagur við kerfið þar sem bitið er af hverri krónu sem tryggingarnar veita viðkomandi á móti þeim tekjum sem viðkomandi skapar sér. Það er auðvitað þannig að þeir sem eru í starfi úti á vinnumarkaði eftir að lífeyrisaldri hefur verið náð eru að borga skatta af þeim tekjum og eru að öllum líkindum minni byrði á heilbrigðiskerfi landsins, andlega líðanin en betri og hreinlega held ég að hægt sé að segja: Þetta er allra hluta vegna gott. Þetta getur líka til að mynda hjálpað til við að veita svigrúm til að trappa sig niður hvað vinnu varðar.

Þetta frítekjumark hefur verið hækkað en er enn allt of lágt. Við í Miðflokknum gerðum það að tillögu okkar fyrir liðnar kosningar að fimmfalda þetta viðmið, ef ég man tölurnar rétt, og það hefði að ég held jákvæð áhrif fyrir ríkissjóð. Þótt mönnum tækist eflaust í fjármálaráðuneytinu að reikna mikinn kostnað af þessu þá er það kostnaður sem verður að kerfinu óbreyttu. Menn gleyma að taka með í reikninginn tekjurnar á móti og í næstu ræðu minni ætla ég kannski að koma aðeins inn á akkúrat þennan þátt, sem snýr að því hvernig nauðsynlegt er að horfa heildstætt á áhrif aðgerða til að auka líkurnar (Forseti hringir.) á því að við séum að taka réttar ákvarðanir hverju sinni og ráðstafa skattfé með sem bestum hætti.

Virðulegur forseti. Ég bið þig að setja mig aftur á mælendaskrá.