Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[22:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég var búinn að lofa að ræða aðeins um borgarlínuna, sem er svo lýsandi fyrir margt af því sem þessi ríkisstjórn brallar með fjármuni ríkisins. Til upprifjunar tók þessi ríkisstjórn upp á því, reyndar á síðasta kjörtímabili, að fjármagna fyrir Samfylkinguna í Reykjavíkurborg helsta og eiginlega eina kosningaloforð flokksins í borgarstjórnarkosningum þar á undan, loforðið um borgarlínu. Ákveðið var að setja 50 milljarða í þetta verkefni svona til að byrja með þótt óljóst væri hver kostnaðurinn við framkvæmdina alla yrði og þótt óljóst væri hver rekstrarkostnaður þessa fyrirbæris yrði, ég tala nú ekki um að vera með tvöfalt strætisvagnakerfi, og þótt óljóst væri hvernig ríkið ætlaði að fjármagna þetta. Þar var velt upp nokkrum hugmyndum, m.a. þeirri hugmynd að nýta ágóðann af sölu Íslandsbanka til að borga þetta ævintýri fyrir borgina eða nýta ávinning af sölu Keldnalands, en þessar tvær eignir voru með verðmætustu eignum ríkisins. Svo mikið var ríkisstjórnin tilbúin til að leggja á sig fyrir borgarstjórnarmeirihlutann en fékk kannski takmarkaðar þakkir fyrir það. Engu að síður mun verkefnið vera komið af stað og við sjáum í þessari áætlun að það er einfaldlega gert ráð fyrir því að ríkið haldi áfram að borga þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar, og ég leyfi mér að segja umvandanirnar, sem við gagnrýnendur þessa máls fengum að heyra, um það að Alþingi myndi á hverju ári þurfa að samþykkja framlögin, og þess vegna þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu, að Alþingi myndi þurfa að staðfesta framlögin á hverju ári.

Ég held að við höfum öll hér í þinginu meira og minna gert okkur grein fyrir því hvers eðlis þær yfirlýsingar voru. Ég held að flestir þingmenn hljóti að gera sér grein fyrir því hvernig þetta gengur fyrir sig. Ríkisstjórn leggur línurnar og meiri hlutinn bara mætir og kýs í samræmi við það. Hér er ríkisstjórnin að leggja línurnar með það að hún ætli að halda áfram á sömu braut, að ráðast í eitt óhagkvæmasta verkefni sem hægt er að hugsa sér í samgöngumálum, eilífðarverkefni sem mun kosta ríkissjóð og borgina, ef hún fæst til að borga eitthvað fyrir þetta verkefni sitt, út í hið óendanlega í rekstri á þessu tvöfalda strætisvagnakerfi.

Á sama tíma velta menn vöngum yfir hagkvæmni þess að ráðast í úrbætur í samgöngumálum en fjárfesta ekki í samræmi við það heldur halda einfaldlega áfram að borga. Það er alltaf að fjölga störfunum í kringum þessa borgarlínu, hversu arðbær sem þau eru. En það eru alltaf fleiri og fleiri sem hafa aðkomu að þessu og ríkið fær að skipa nokkra menn til að halda utan um þetta, hefur gert það og ætlar sér bara að halda áfram að borga og borga án þess að fyrir liggi þau grundvallaratriði sem er sífellt verið að tönnlast á að séu svo mikilvægur þáttur í nýjum lögum um opinber fjármál, að menn þurfi að gera sér grein fyrir kostnaðinum, að menn þurfi að reikna hvað rekstur muni kosta o.s.frv. Þessu er öllu varpað til hliðar í tilviki borgarlínunnar, sem er enn eitt dæmið um umbúðapólitíkina sem einkennir þessa ríkisstjórn; það að langa stöðugt að koma fram með mál sem hljóma vel, mál með góðri yfirskrift, ég tala nú ekki um ef ríkisstjórnin getur fengið borgarstjórann í Reykjavík(Forseti hringir.) til að taka undir með sér og hrósa sér. En þegar menn skoða innihaldið má sjá fyrir sér einhverja allt aðra niðurstöðu en lýst er.