Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[22:56]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Eins og ég sagði við lok síðustu ræðu minnar þá ætlaði ég í þessari ræðu að tæpa örsnöggt á því hvernig mati er háttað á afleiddum áhrifum frumvarpa. Hér varð töluverð umræða í tengslum við svokölluð farsældarfrumvörp félags- og barnamálaráðherra á liðnu kjörtímabili en á þeim tíma kom beinlínis fram í greinargerð að málið væri ekki fjármagnað á þeim tímapunkti. Hér komu stjórnarliðar upp í röðum og útskýrðu það, sérstaklega tilteknir þingmenn Framsóknarflokksins, að það væri nú allt í lagi, það þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því, vegna þess að arðurinn af þessum aðgerðum væri svo mikill til framtíðar að það myndi borga það upp mörgum sinnum. Það er alveg örugglega rétt að það er mikil arðsemi í því — fyrir utan það augljósa að það er rétt og gott og ég ímynda mér að flestir séu þeirrar skoðunar — að búa börnum þessa lands gott umhverfi og gott samfélag til að alast upp í. En þarna var rökstuðningurinn sá að það væri svo mikil arðsemi af þessu að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af því að málið væri ekki fjármagnað eins og það lá fyrir á þeim tímapunkti.

Gott og vel. Svo líður og bíður og hafin er umræða um að hækka frítekjumark eldri borgara, eins og ég ræddi hér í fyrri ræðu minni. Frítekjumark eldri borgara virðist aldrei mega nefna öðruvísi en svo að það komi bein lína frá þeim sem heldur um reiknistokkinn þar sem segir: Kostnaðurinn af þessu er allt of mikill, þetta eru bara útgjöld. Þar má alls ekki horfa á afleidd áhrif, eins og ég fór inn á í fyrri ræðu minni; afleidd áhrif sem koma fram í aukinni virkni og bættri líkamlegri og andlegri heilsu þeirra eldri borgara sem vilja og geta nýtt starfskrafta sína eftir að lífeyrisaldri er náð; það má alls ekki horfa á það heildstætt, það er alveg bannað.

Síðan kom fram hér, sennilega fyrir einum tveimur vikum, beiðni í þinginu um að frumvarp hæstv. ráðherra Lilju Daggar Alfreðsdóttur, sem er menningar- og viðskiptaráðherra. Hæstv. ráðherra menningar og viðskipta kom fram hér í þinginu með frumvarp sem varðar endurgreiðslu á framleiðslukostnaði við kvikmyndir á Íslandi. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar kom í viðtal og talaði á þeim nótum að heildaráhrif frumvarpsins væru svo jákvæð að það réttlætti þann útgjaldaauka sem þar kæmi til.

Við verðum að koma einhverri reglu á það hvenær má horfa til heildaráhrifa, afleiddra áhrifa og hvenær ekki. Auðvitað á reglan að vera sú að það er alltaf horft heildstætt á það sem er verið að fjalla um. En eins og reglan virðist liggja núna, á milli núverandi ríkisstjórnarflokka, þá virðist hún bara eiga við ráðherra Framsóknarflokksins þegar kemur að því að horfa á heildaráhrif, alls ekki ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Ég þarf aðeins að leggja höfuðið í bleyti varðandi frumvörp ráðherra Vinstrihreyfingarinnar — græns framboðs; ég man ekki í augnablikinu eftir málum sem það á við um. Það er ekki boðlegt að þegar ráðherrar Framsóknarflokksins koma fram með frumvörp sé útgjaldahlutinn réttlættur með afleiddum áhrifum, en þegar komið er fram með frumvörp hvað það varðar að rýmka svigrúm eldri borgara til að nýta starfskrafta sína vilji þeir það áfram megi bara horfa á útgjaldahlutann. Þetta er hvorki sanngjarnt né eðlilegt og alls ekki skynsamlegt hvað hagsmuni ríkissjóðs varðar.

Ég vil biðja frú forseta að setja mig aftur á mælendaskrá. Það eru nokkur atriði sem ég vildi fá að koma inn á hér í þessari umræðu.