Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[23:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þegar maður er búinn að segja borgarlín-a, verður maður að segja b, eða braut, Sundabraut. Það er auðvitað mjög sláandi samanburður, áform borgaryfirvalda og raunar ríkisstjórnarinnar, eða a.m.k. aðgerðir þessara aðila, annars vegar í tilviki borgarlínu, sem er keyrð áfram á öllum vígstöðvum og peningum hent í hana án þess að menn hafi hugmynd um hvað það kostar, og svo Sundabrautar, sem legið hefur fyrir áratugum saman að sé einhver hagkvæmasta samgöngubót sem hægt er að ráðast í, þar sem eingöngu er þvælst fyrir.

Í kaflanum um samgöngur í þessari fjármálaáætlun er ekki mikil svör að finna um það að ríkið ætli að keyra Sundabrautina áfram. Þar er almennt tal um hagkvæmni samgöngubóta en í fljótu bragði er ekkert að sjá um að ríkisstjórnin hugsi sér að keyra áfram Sundabrautarverkefnið. Þess í stað er lögð áhersla á það sem kallað er samvinnuverkefni og opinber hlutafélög í samgönguframkvæmdum. Gott og vel, það má ræða það. En þetta hugtak, samvinnuverkefni í samgöngumálum, held ég reyndar að sé sami hluturinn og opinber hlutafélög. Þó að menn hafi náð að tvítaka það hér í fyrirsögn, Samvinnuverkefni og opinber hlutafélög, þá er þetta sami hluturinn í skilningi laganna. Það er ekki hvað síst Framsóknarflokkurinn sem talar um samvinnuverkefni í samgöngumálum, væntanlega vegna þess að einhverjir flokksmanna, sérstaklega þeir sem hafa verið þar lengur en frá síðustu borgarstjórnar- eða þingkosningum, hafa heyrt af því að Framsóknarflokkurinn hafi verið samvinnuflokkur og tengdur samvinnuhreyfingunni og fannst sniðugt að nota þetta heiti og skýra þessi verkefni því nafni án þess, að því er virðist, að gera sér nokkra grein fyrir því hvað þetta raunverulega þýðir og án þess enn og aftur að aðgerðirnar séu raunverulega til þess fallnar að styðja við samvinnufélög.

Eða hvert er helsta áhyggjuefni Framsóknarflokksins núna við þinglok? Það er að troða í gegn máli sem var allt of seint fram komið og allt of illa unnið, um það að leggja niður eina stétt fólks á Íslandi, leigubílstjóra. Í hvers konar félögum starfa þessir leigubílstjórar? Svo að ég nefni bara eitt dæmi, þeir sem starfa hjá Hreyfli. Hvers konar fyrirtæki er Hreyfill? Menn geta flett því upp í fyrirtækjaskrá: Hreyfill, samvinnufélag. Þetta samvinnufélag og önnur samvinnufélög vill flokkurinn nú leggja niður og beitir sér af töluverðri hörku í því sambandi nú við lok þingstarfa. Á sama tíma tala flokksmenn óljóst um það sem skreytt er með nafninu Samvinnuverkefni í samgöngumálum, en sáralítið er gert í arðbærustu, hagkvæmustu og mikilvægustu samgöngubótunum, eins og sjá má hér í þessari fjármálaáætlun.

En borgarlínan fær sitt og Samfylkingin í Reykjavík. Reyndar má ég til með að nefna í þessu samhengi, frú forseti, þótt það sé örlítið utan við efnið — það tengist því samt — að núverandi borgarstjóri í Reykjavík lýsti því yfir að hann væri reiðubúinn að gefa borgarstjórastólinn eftir til oddvita Framsóknarflokksins í borginni vegna þess að það væri mikilvægara að halda borgarlínunni gangandi. Með öðrum orðum, gegn því að gefa eftir athugasemdir við borgarlínu fékk Framsóknarflokkurinn borgarstjórastólinn í Reykjavík eða fær eftir einhvern tíma. Það býr til þá áhugaverðu stöðu að ekki aðeins er Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn búinn að fjármagna helsta kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík heldur er hann líka að kaupa borgarstjórastól fyrir Framsóknarflokkinn í byrjun árs 2024.