Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[23:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Hv. þm. Bergþór Ólason víkur hér að atriði sem ég hafði veitt sérstaka athygli og merkt sérstaklega í áliti meiri hluta fjárlaganefndar. Ég gæti viljað bæta einhverju aðeins við það á eftir en ég ætla að reyna að halda þræði því að ég var byrjaður að fjalla um umhverfiskafla fjármálaáætlunarinnar og setti það aðeins í upphafi í samband við landbúnaðinn og samgöngurnar.

Í umfjöllun minni um landbúnaðarmálin benti ég á að gert væri ráð fyrir viðvarandi samdrætti eða niðurskurði í stuðningi við þá grein. Svona til samanburðar þá er heildarstuðningur við landbúnað á næsta ári, 2023, 19,27 milljarðar en heildarframlög í umhverfismál 27,5 milljarðar. Og hvers vegna skýtur þetta skökku við, frú forseti? Jú, annars vegar vegna þess, sem ég nefndi hér áðan, að áhrif aðgerðanna í umhverfismálunum eru oft og tíðum mjög óljós og stundum jafnvel skaðleg, en það liggur alveg ljóst fyrir, eða ætti a.m.k. að liggja ljóst fyrir, hver áhrifin eru varðandi landbúnaðinn. Ég veit ekki hvort sprettnefndin svokallaða mun reikna það en það er a.m.k. algjörlega ljóst hversu mikilvægur landbúnaður er fyrir samfélagið og efnahag Íslands en hann fær sem sagt umtalsvert minna núna en rennur í umhverfismálin. Þó er innlendur landbúnaður og sterkari staða hans líklega eitthvað það besta sem við getum gert í umhverfismálum.

Nú í vikunni fengum við að sjá nýjar tölur um hversu mikill sparnaður það væri í losun gróðurhúsalofttegunda og hversu mikilvægt það væri fyrir umhverfið að við framleiddum matvælin sjálf að eins miklu leyti og kostur er og neyttum þeirra hér heima, innlendra matvæla. Við erum annars vegar að tala um grein sem er búin að sanna gildi sitt fyrir landsmenn frá landnámi, undirstöðuatvinnugrein frá því að fyrstu landnemarnir komu til Íslands, og hins vegar umbúðamennskuna í umhverfismálum, þar sem hent er út skýrslu og sagt: 50 milljarðar í loftslagsmál. Samanburðurinn á þessu er mjög sláandi. Við getum borið saman virðinguna fyrir undirstöðuatvinnugrein með margsannað og margreynt mikilvægi annars vegar og svo eitthvað með mjög óljós áhrif en möguleikana á því að kynna glærur á fundum í útlöndum hins vegar — við sjáum hversu mismikla virðingu þessar greinar fá. Það er í rauninni sláandi, frú forseti.

Það er fleira sem fjallað er um í umhverfiskaflanum og við höfum séð það á síðastliðnum árum, sérstaklega á síðustu tveimur árum, að lögð hefur verið áhersla á að auka gjöld á almenning vegna móttöku úrgangs, m.a. gríðarleg hækkun á kostnaði við að losa jarðefni. En þetta, eins og svo margt í þessum kafla, getur haft þveröfug áhrif á við það sem stefnt er að því að ef menn þurfa að borga margfalt það sem áður þurfti fyrir að losa t.d. jarðefni, mold, steina og slíkt, þá hlýtur hættan að aukast á því að þetta verði einfaldlega losað einhvers staðar úti í náttúrunni, einhvers staðar annars staðar. Þarna er komið dæmi um það hvernig óæskileg nálgun, sem felur í raun í sér ósanngjarnar álögur á almenning, getur leitt til öfugrar niðurstöðu miðað við það sem stefnt var að.

Frú forseti. Mér finnst tíminn líða sífellt hraðar og þó er ég rétt að komast af stað með umhverfiskaflann. (Forseti hringir.) Ég bið yður því að skrá mig aftur á mælendaskrá.