Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[23:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Til að loka þeim hluta sem ég kom inn á áðan, sem snýr að brýnum verkefnum sem meiri hlutinn leggur áherslu á í meirihlutaáliti fjárlaganefndar við mál þetta, þá endaði ég á þessari stórkostlegu setningu, með leyfi forseta:

„Til að efla enn framtíðarvöxt og tækifæri leggur meiri hlutinn áherslu á að unnið verði með mun markvissari hætti að samþættingu til að rjúfa ákveðna stöðnun í ýmsum þáttum innviða.“

Þarna hlýtur maður að spyrja sig: Af hverju er ekki löngu búið að ganga til þess verks að rjúfa ákveðna stöðnun? Þurfti að bíða kosninga til þess? Hafði ríkisstjórnin ekki fjögur ár til að gera það á fyrri stigum? En látum það nú liggja milli hluta. Það er greinilegt að hugarfarið er breytt. En ég gef mér eiginlega úr því að meiri hlutinn telur tilefni til að nefna þetta sérstaklega í nefndaráliti sínu þá telji meiri hlutinn þetta ekki koma nógu skýrt fram, þessa sýn í frumvarpinu eins og það liggur fyrir.

Þá kemur að næsta atriði, með leyfi forseta, þar sem meiri hlutinn segir:

„Það snýst ekki allt um aukna fjármuni til verkefna á vettvangi hins opinbera heldur um það að beita réttum aðferðum og hvötum til að laða fram sókn á sviði innviða sem samfélagið hefur tæplega efni á að byggja ekki upp.“

Þetta er aldeilis frábær setning. Af hverju tók það ríkisstjórnina fimm ár að komast á þennan stað? Það þarf reyndar áréttingu frá meiri hluta fjárlaganefndar sem mögulega sér þetta ekki með nægjanlega skýrum hætti inni í texta frumvarpsins. En þetta er auðvitað það sem við þurfum að leiða fram, þ.e. að það sé ekki sífellt bara kallað á aukna fjármuni heldur leitað leiða til að nýta það sem við höfum betur, fá meira fyrir minna. Eins og komið hefur fram hér fyrr í umræðunni þá var það fyrrverandi landlæknir, ef ég man rétt, sem sagði efnislega að það væri hægt að setja endalausan pening inn í heilbrigðiskerfið en það dygði ekki ef menn löguðu ekki kerfið. Það er það sem á við á svo mörgum sviðum, það er býsna víða sem hítin tekur endalaust við og mun gera það, botnlaus hít, ef kerfið er ekki lagað. Það er það sem mér finnst vanta á. Þetta fyrsta ár þessarar ríkisstjórnar á nýju kjörtímabili, fimmta ár ríkisstjórnarinnar samanlagt, hefur að miklu leyti farið í að endurskipuleggja Stjórnarráðið með þeirri miklu orku sem virðist hafa farið í það. Allur þessi fókus beinlínis verður að fara að koma fram býsna fljótt. Að öðrum kosti getur maður ekki ályktað annað en svo að það sé engin sérstök meining á bak við þennan fagurgala.

Ég ítreka að ég hvet alla sem hafa áhuga til að lesa innganginn í meirihlutaálitinu sem hér liggur fyrir, á bls. 8, byrjunarhluta hans, Brýn verkefni sem meiri hlutinn leggur áherslu á. Þetta er alveg frábær texti og hann segir allt sem þeir sem vilja fara vel með skattfé segja og hugsa en hér, eins og svo oft áður, fer ekki saman hljóð og mynd því að af gjörðum ríkisstjórnarinnar að dæma þá er enginn fókus á þetta. Þessi texti gæti verið úr stefnuplaggi Miðflokksins, hann er alveg stórfínn, en það er ekki horft til þess að ná þessum markmiðum fram. Ég verð að viðurkenna að það er svolítið svekkjandi að textinn sé settur fram með þessum hætti þar sem er horft til þess að nýta rétta hvata og fá meira fyrir minna, minnka flækjustig, gera kerfið skilvirkara en svo bara gerist ekki neitt. Menn berja hausnum við steininn, halda sig við sín gömlu góðu síló og kalla eftir meiri peningum í sinn málaflokk. Það er ekki leiðin sem er verið að lýsa hér, hver sem skrifaði þennan ágæta texta.

Frú forseti. Næst ætla ég að fara í tekjuöflunarhluta ríkissjóðs og ég vil biðja þig að setja mig aftur á mælendaskrá.