Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[23:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil í þessari ræðu minni koma inn á sjónarmið sem koma fram í nefndaráliti meiri hluta varðandi tekjuöflun ríkissjóðs, sem snýr að skattlagningu á umferð og ökutæki. Hér segir, með leyfi forseta:

„Í áætluninni er boðuð endurskoðun á skattlagningu á umferð og ökutæki. Veruleg eftirgjöf tekna af ökutækjum og ákveðið skattleysi á afnotum af vegakerfi landsins er verulegt ef miðað er við fyrra fyrirkomulag skattlagningar. Þó að ekki liggi fyrir nákvæm greining á þeirri eftirgjöf er um verulegar fjárhæðir að ræða.“

Fyrst vil ég segja að það er kúnstugt að ekki liggi fyrir greining á þeirri eftirgjöf þar sem um verulegar fjárhæðir er að ræða. Mér finnst hreinlega ótrúlegt að þetta liggi ekki fyrir. Það er búið að kalla eftir þessari endurskoðun árum saman. Sjálfur hef ég gert það ítrekað. Ég hugsa að ég hafi gert það á hverju einasta ári síðasta kjörtímabils. Miðað við áhersluna sem hefur verið lögð á slík gjöld af innviðaráðherra, að vinna að samvinnuverkefnum annars vegar, þar sem hluti verkefna eða allt að 100% verkefna skuli greiðast upp með notendagjöldum og gjaldtöku af umferð, og hins vegar borgarlínuverkefninu þar sem töluvert stórt gat á að greiðast með sérstökum umferðargjöldum, þá er eiginlega alveg ótrúlegt að við séum núna á fimmta ári ríkisstjórnarinnar fyrst að sjá áherslu í þessum efnum. Það hefur legið fyrir svo lengi að notkun nýorkubíla væri að aukast jafnt og þétt. Hér er síðan áfram í álitinu talað um rétta hvata. Það er ánægjulegt í ljósi kosningastefnu Miðflokksins fyrir síðustu kosningar að ríkisstjórnin sé farin að horfa til þess að hvatar skipti einhverju máli. En hér vil ég grípa aftur niður í texta álitsins, með leyfi forseta:

„Ekki verður horft fram hjá því mikið lengur að ökutæki sem „greiða“ ekki fyrir afnot af vegum koma niður á viðhaldi þeirra. Í gögnum um þörf á viðhaldi og ástæðum þess sem Vegagerðin hefur sýnt fjárlaganefnd kemur vel fram að þyngd ökutækja skiptir þar höfuðmáli.“

Þarna er verið að segja að vegirnir slitni af völdum þungaflutninga. Vegirnir eru ekki að slitna mikið vegna fólksbíla. Þyngri bílar njóta ekki niðurfellingar þessara gjalda þannig að þetta er á einhverjum misskilningi byggt. En það er auðvitað þannig að tekjumissirinn sem er af almennri notkun léttari ökutækja, léttari bifreiða, skiptir auðvitað máli í heildarmyndinni og þar koma inn sjónarmið um eyrnamerktar tekjur og ekki, sem er nú efni í fjórar ræður eitt og sér. Þær koma kannski á eftir. En það skiptir máli að við horfum á kerfið eins og það er. Ég held að við getum ekki farið að byggja upp kerfi eins og hér er lagt til, með leyfi forseta, í nefndarálitinu:

„Meiri hlutinn leggur til að við breytta skattlagningu verði m.a. horft til þyngdar ökutækja samhliða því að gætt sé að jafnræði við skattlagninguna.“

Ef hugur fylgir máli þarna þá er verið að segja að það eigi að hækka mjög verulega gjaldtöku fyrir notkun flutningabíla, svo dæmi sé tekið, sem mun hafa gríðarlega neikvæð áhrif á landsbyggðina. Það mun auka flutningskostnað alveg geigvænlega ef við ætlum að framfylgja því sem hér er sagt. Ég held að það sé eitthvað sem við verðum að taka mjög djúpa og ígrundaða umræðu um ef það er raunverulega vilji þingsins, og það er greinilega vilji ríkisstjórnarflokkanna, að auka mjög flutningskostnað á landsbyggðinni. Ef það á að tengja gjaldtökuna með mjög beinum hætti við það slit sem umferðin orsakar þá mun meginþungi gjaldtökunnar færast yfir á þungaflutningahluta umferðarinnar. Ég er ekki viss um að það sé það sem menn sjá fyrir sér til lengri tíma. Ég held að við verðum sömuleiðis að byggja kerfið upp þannig gagnvart fólksbílunum að það verði innbyggður einhver magnafsláttur þannig að þetta sé ekki eina þjónustan sem (Forseti hringir.) almenningur kaupir af hinu opinbera þar sem kostnaðurinn er línulegur, kílómetra fyrir kílómetra, að Gísli Marteinn borgi sömu krónutölu á kílómetra (Forseti hringir.) með sína nokkra kílómetra á ári og sá sem þarf að keyra tugi þúsunda ferkílómetra í tengslum við vinnu og störf og akstur barna í grunnskóla um langan veg.