Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  14. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[00:22]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég var nú ekki kominn langt með umræðu um þetta stóra mál og var enn að fjalla um umhverfiskaflann og hafði hugsað mér að tengja það yfir í orkukaflinn, augljóslega náskyld mál og margt að ræða þar. En nú skilst mér að verið sé að reyna að koma á einhverju fyrirkomulagi með dagskrána hér fram undan sem geti verið aðgengilegt öllum, vonandi. Þess vegna ætla ég að reyna að liðka fyrir þingstörfum, ef forseta er það ekki á móti skapi, og falla frá frekari umræðu um þetta mál í bili þótt margt sé ósagt. Hæstv. forseti er þá meðvitaður um það að ég hef ekki náð að fara yfir nema brot af því sem ég hefði viljað fara yfir hér í þessu máli. En hugsanlega gefst mér tækifæri til að koma inn á einhver þeirra atriða í öðrum skyldum málum. Og svo verða væntanlega hér fleiri mál frá þessari ríkisstjórn í framtíðinni, ef þessi ríkisstjórn heldur áfram, sem gefa tækifæri til þess að fara betur yfir það sem ég hefði gjarnan viljað rekja í þessari umræðu. En til að liðka fyrir þingstörfum, eins og okkar er háttur í Miðflokknum, þá læt ég hér staðar numið að sinni.