Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[14:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnir eru oft gagnrýndar fyrir kosningafjárlög. Þá eru, eins og við þekkjum, útgjöld aukin til vinsælla verkefna rétt fyrir kosningar, klapp á bakið og allir góðir. En síðan er hin hliðin á dæminu og hún er ekki jafn vinsæl, það er að afla tekna eða hagræða á móti og sú hlið er iðulega skilin eftir fyrir næstu ríkisstjórn. Þessi gagnrýni er ekki bundin við Ísland, hún er þekkt í flestum lýðræðisríkjum. Ég man hins vegar ekki eftir því fyrr en nú að ríkisstjórn hafi beinlínis gefið út stefnuyfirlýsingu í byrjun kjörtímabils um að hún ætli að halda áfram að safna skuldum og skilja allan vandann eftir í fangi næstu ríkisstjórnar, eins og til að mynda Viðskiptaráð hefur bent á, eins og til að mynda Samtök atvinnulífsins hafa bent á, eins og til að mynda BHM hefur verið að benda á. Það er erfitt að finna hliðstæðu af þessu tagi í öðrum vestrænum löndum og finnist einhver samanburður ætti þetta að vera samanburður sem enginn ætti að stæra sig af. Mér finnst þetta segja bara eina sögu, þetta er ákveðið sinnuleysi en verkefnið er þetta: Það er að setja áfram þennan skuldahalla yfir á næstu ríkisstjórn og við vitum hverjir fá það verkefni.