Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[14:25]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það veldur mér alltaf miklum áhyggjum þegar hæstv. fjármálaráðherra kemur upp í pontu og talar um hvað allt sé gott. Það eins og hann sé ekki í tengslum við raunveruleikann. Hér er fjármálaáætlun sem á að klára og hæstv. fjármálaráðherra talar um að verið sé að huga að grunnstoðunum í samfélaginu á sjálfbæran hátt. Á sama tíma erum við að fá fréttir af því að heilbrigðisstarfsfólk er að brenna út og er að fara úr vinnu; ljósmæður hverfa, hjúkrunarfræðingar eru að fara í önnur störf, það er bara fólksflótti af spítalanum og heilbrigðisstofnunum landsins af því þetta er vanfjármagnað og fólk er að brenna út. Ungt fólk fær ekki húsnæði, kemst ekki inn á húsnæðismarkaðinn en það er aldrei einhvern veginn hægt að nálgast þessi vandamál á meðan hæstv. fjármálaráðherra telur að allt sé í himnalagi og það sé verið að huga að grunnstoðum á sjálfbæran hátt og neitar að fjármagna þessar grunnstoðir sem þurfa svo mjög alvarlega á fjármögnun að halda (Forseti hringir.) og ég hef áhyggjur af framtíðinni, forseti, þegar hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin eru svona ofboðslega úr tengslum við raunveruleikann og það sem er að gerast í samfélaginu.