Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

eignarráð og nýting fasteigna.

416. mál
[19:20]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði bara að koma hér örstutt til þess að fara yfir það að ég styð þetta frumvarp og er ánægð með nefndarálit allsherjar- og menntamálanefndar sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir hefur gert hér grein fyrir. Ég vil hins vegar halda því til haga, eins og við 1. umr., að ég álít mikilvægt að skýra enn betur verklag við ákvarðanatöku ríkisins um nýtingu forkaupsréttar, hvort sem það er vegna náttúruverndar eða vegna minjaverndar, í framhaldi af samþykkt þessa frumvarps. Ég kem því hér til að fagna sérstaklega umfjöllun í nefndaráliti um að æskilegt sé að ríkið setji sér hlutlæga stefnumörkun hvað þetta varðar sem tryggi jafnræði og gagnsæi varðandi ákvarðanatöku um nýtingu forkaupsréttar vegna almannahagsmuna að minjavernd eða náttúruvernd. Þannig sé ég fyrir mér að í framhaldinu verði farið yfir verklagið af hálfu ríkisins og stefnumörkunin skýrð um þau sjónarmið sem litið verði til við nýtingu forkaupsréttar ríkisins. Það skiptir mjög miklu máli að skýrt liggi fyrir með hvaða hætti kaup ríkisins á tiltekinni jörð tryggja almannahagsmuni, hvaða vinna þarf að fara fram í kjölfar slíkra kaupa, hvort eða hvernig landið eða jörðin verði nytjuð áfram, hvort breyta þurfi skipulagi í framhaldinu og hvort í kaupunum felist áform um uppbyggingu eða jafnvel viðhald á óbreyttu ástandi á landinu. Með öðrum orðum, hvort eða hvernig tryggja eigi aðgengi, nýtingu og uppbyggingu innviða á slíkum svæðum, náttúruverndarsvæðum eða minjaverndarsvæðum, í almannaþágu.

Virðulegi forseti. Ég ítreka ánægju mína með það að inn á þessi atriði skuli komið og fjallað í nefndaráliti.