Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 92. fundur,  15. júní 2022.

sorgarleyfi.

593. mál
[22:22]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um mikilvægt velferðarmál, sem full samstaða ríkir um á Alþingi og í samfélaginu. Með sorgarleyfi og greiðslum tengdum því þá tökum við betur utan um barnafjölskyldur sem lenda í þeirri ógæfu og sorg að missa barn og reyndar er það svo að með þessari lögfestingu er Ísland komið í fremstu röð í heiminum hvað varðar stuðning við fjölskyldur sem missa barn sitt. Ég vil líka greina frá því að ég hyggst setja af stað vinnu við að stíga frekari skref í þessum málum og kanna m.a. möguleika á að veita sorgarleyfi með einum eða öðrum hætti til þess að mæta barnafjölskyldum þar sem foreldri fellur frá. Vonandi getum við unnið það hratt og vel og ég óska eftir góðu samstarfi við þingið um það mál.

Ég vil að lokum þakka hv. velferðarnefnd og framsögumanni fyrir að klára málið hratt og vel. Alþingi er mikill sómi að því að samþykkja þetta mál.