Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 92. fundur,  15. júní 2022.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

592. mál
[23:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Orri Páll Jóhannsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta velferðarnefndar fyrir áliti um þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

Með tillögunni eru lagðar til aðgerðir um málefni innflytjenda sem samræmast meginmarkmiðum laga um málefni innflytjenda, nr. 116/2012, um að stuðla að samfélagi þar sem öll geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Í 7. gr. framangreindra laga segir að ráðherra skuli leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda til fjögurra ára í senn. Áætlunin tekur mið af áherslum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og því að árið 2022 fluttist þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd yfir á ábyrgðarsvið félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hluti velferðarnefndar árétta sérstaklega að umsagnaraðilar hafi almennt verið jákvæðir gagnvart tillögunni og fagna því sérstaklega að nú skuli stefnt að gerð langtímastefnu í málefnum innflytjenda, flóttafólks og fjölmenningar.

Nefndin fjallaði sérstaklega um mikilvægi ráðgjafarstofu fyrir innflytjendur sem nokkrir umsagnaraðilar bentu á. Reynslan af þessu þjónustuúrræði hefur sýnt að slíkt úrræði sé nauðsynlegt og löngu tímabært. Sem dæmi má nefna að í umsögn Alþýðusambands Íslands kemur fram að aðgengi að upplýsingum og þjónustu á mörgum tungumálum sé meginforsenda jafnréttis í fjölbreyttu samfélagi og nauðsynlegt sé að tryggja gott aðgengi að þjónustunni. Í umsögn Kvasis – samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva er bent á að nýta megi þétt net símenntunarmiðstöðva í þessu samhengi. Af umsögnum að dæma hefur reynslan af þessu úrræði, sem komið var á í kjölfar samþykktar þingsályktunar nr. 34/149, verið góð. Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið.

Þá fjallaði nefndin um mikilvægi íslenskukennslu. Í umsögn Kvasis – samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva er bent á mikilvægi þess að íslenskukennarar sem kenna innflytjendum íslensku uppfylli ákveðnar gæðakröfur. Þá þurfi átak í starfsþróun kennara á öllum skólastigum að ná til kennara í íslenskukennslu fyrir útlendinga hjá símenntunarmiðstöðvunum. Þá benda samtökin á nauðsyn þess að endurskoða námskrár og námsefni í íslensku fyrir útlendinga. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs kemur m.a. fram að löggjöf um framhaldsfræðslu verði endurskoðuð og er sú vinna að hefjast. Gera verður ráð fyrir að í þeirri vinnu verði m.a. fjallað um gæði og umgjörð íslenskukennslu fyrir innflytjendur.

Nefndin fjallaði um aldrað fólk sem kemur til landsins á grundvelli fjölskyldusameiningar. Í umsögn Rauða krossins á Íslandi var bent á að staða þess fólks sé óljós. Meiri hlutinn deilir þeim áhyggjum sem fram koma í umsögninni að hætta sé á fátækt og félagslegri einangrun þessara einstaklinga. Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að hafa þau sjónarmið sem fram koma í umsögn Rauða krossins um stöðu aldraðra í huga við innleiðingu áætlunarinnar.

Nefndin fjallaði jafnframt um athugasemd Alþýðusambands Íslands um að samfélagstúlkun sé ekki fjármögnuð. Meiri hlutinn bendir á að umrædd aðgerð snýr að gæðaviðmiðum sem og því að skýra og skerpa á reglum varðandi réttindi til túlkaþjónustu. Meiri hlutinn tekur þó undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn sambandsins að góð og fagleg túlkun sé forsenda aðgengis að samfélaginu og tryggja þurfi umgjörð fyrir starfandi túlka svo hér verði til öflug starfsstétt túlka. Meiri hlutinn telur aðgerðina miða að þessum markmiðum og vill benda á að Alþingi samþykkti þingsályktun nr. 31/151 þann 12. júní 2021 um eflingu stöðu einstaklinga sem ekki eru mæltir á íslensku í samskiptum þeirra við stjórnvöld.

Þá ræddi nefndin um vinnuvernd og réttindi á vinnumarkaði. Í umsögnum ASÍ og BSRB koma fram áhyggjur af brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði. ASÍ bendir á að samfara fjölgun innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði hafi verkalýðshreyfingin orðið vitni að og þurft að bregðast við sívaxandi brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði. Brotin beinast að þeim sem síður þekkja réttindi sín og er erlent launafólk í þeim hópi. Meiri hlutinn tekur undir að sporna þurfi gegn þessu og telur markmið aðgerðar 4.4 stuðla að aukinni vernd á íslenskum vinnumarkaði því með góðum upplýsingum um réttindi og skyldur megi sporna gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði sem er meinsemd í íslensku samfélagi.

Nefndin tekur undir athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga um þátttöku innflytjenda í kosningum í ljósi þess að kosningaþátttaka innflytjenda hér á landi er lítil. Meiri hlutinn bendir á að tillagan var unnin áður en breyting á réttindum innflytjenda til kosningaþátttöku tók gildi og tekur undir mikilvægi þess að vinna að aukinni þátttöku innflytjenda í kosningum og samfélagslegri virkni að öðru leyti. Meiri hlutinn beinir því jafnframt til ráðuneytisins að það leggi sitt af mörkum, í samstarfi við hlutaðeigandi ráðuneyti, til þess að auka þátttöku innflytjenda í kosningum og samfélagslegri virkni.

Að lokum tekur nefndin undir áhyggjur ýmissa umsagnaraðila um fjármögnun aðgerða tillögunnar. Í því sambandi bendir nefndin á að kostnaðarmat við tillöguna hafi verið unnið af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og er það mat meiri hlutans að ætla verði að þær aðgerðir sem tilgreindar eru í tillögunni séu því að fullu fjármagnaðar. Þá telur meiri hlutinn rétt að geta þess að starfræktur er þróunarsjóður innflytjendamála og hafa áherslur sjóðsins m.a. snúið að því að styðja við verkefni sem tilgreind eru í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

Frú forseti. Meiri hluti velferðarnefndar leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lögð til breyting er varðar upptalningu samstarfsaðila í tillögunni. Meiri hlutinn vill þó benda á að upptalning samstarfsaðila er ekki tæmandi þar sem einungis er um að ræða dæmi um samstarfsaðila og því ekkert því til fyrirstöðu að fleiri séu kallaðir til samstarfs við innleiðingu einstakra aðgerða.

Í öðru lagi tekur meiri hlutinn undir ábendingu ENIC/NARIC upplýsingaskrifstofu Íslands, um nám á háskólastigi. Leggur meiri hlutinn því til breytingu á orðalagi í aðgerð 3.6. með þeim hætti að það nái einnig til raunfærnimats tengt námi á háskólastigi.

Í þriðja lagi bendir meiri hlutinn á að unnið er að gerð nýrra samninga um samræmda móttöku flóttafólks m.a. með hliðsjón af afleiðingum stríðsins í Úkraínu. Meiri hlutinn leggur því til breytingu á orðalagi aðgerðar 5.1.

Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í áliti meiri hluta velferðarnefndar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti velferðarnefndar til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í álitinu.

Undir nefndarálitið rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Líneik Anna Sævarsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, með fyrirvara, Guðrún Hafsteinsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Óli Björn Kárason.