Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 92. fundur,  16. júní 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

482. mál
[01:00]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Samkvæmt 44. gr. stjórnarskrár þarf hvert lagafrumvarp að fá þrjár umræður til að teljast stjórnskipulega rétt sett. Það felur m.a. í sér að breytingar við lagafrumvörp þurfa að falla að efni þess og markmiði og ekki teljast svo umfangsmiklar að um nýtt frumvarp sé að ræða. Markmið fyrirliggjandi frumvarps er að leggja til breytingar sem nauðsynlegar þykja vegna fríverslunarsamnings Íslands við Bretland eftir útgöngu þess úr ESB og EES. Þannig verði kveðið á um með skýrum hætti í lögum að nánustu aðstandendum þjónustuveitenda sem starfa tímabundið á Íslandi verði gert kleift að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Markmið breytingartillögu á þskj. 732 er að tryggja allir þeir sem fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða fái sjálfkrafa og milliliðalaust atvinnuleyfi samhliða dvalarleyfinu. Verður því að telja að það sé vafi á því hvort umrædd breytingartillaga falli að efni og markmiði frumvarpsins. Þá er ljóst að hún hefur heldur ekki fengið þrjár umræður nú þegar, enda telst hún fyrst nú eftir 2. umr. verða hluti af málinu og hefur aðeins fengið tvær umræður í þingsal.