Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 92. fundur,  16. júní 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

482. mál
[01:01]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég ætla að reyna að gera mig skiljanlega í þetta skipti. Breytingartillagan sem ég er að leggja til er akkúrat á þessu frumvarpi um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Hún er komin á réttan stað, úr því frumvarpi þar sem hún var áður.

Það sem hv. þm. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir var að segja hér áðan varðandi það að þetta hafi ekki verið rætt við þrjár umræður þá er það rangt á mjög margan hátt. Breytingartillagan var lögð fram í 1. umr. og kom þar til umræðu. Þá var þetta hluti af stjórnarfrumvarpi sem hefur verið margrætt í þessum þingsal. Þetta er ekki koma fyrst til umræðu núna. Mér þykir miður að verið sé að grípa til einhverra mjög óljósra og vafasamra lagatæknilegra atriða til að reyna að ná þessari breytingartillögu minni út þar sem ég held að við öll hér í þessum þingsal séum sammála um það að það sé samfélaginu öllu og okkur öllum og ekki síst því fólki sem hingað leitar til bóta að fólk sem hefur fengið dvalarleyfi hér á landi geti einfaldlega farið og fundið sér vinnu.

Ég hvet ykkur öll til að nýta þetta tækifæri til að koma í gegn þessari góðu breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga þar sem hún á heima. Hún á heima við þetta frumvarp. Það er engin spurning. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)