Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur gengið vel hjá okkur. Ég nota frekar einfaldan mælikvarða á það hvernig ríkisstjórninni er að ganga. Við skoðum afkomu heimilanna. Við skoðum það meira að segja brotið niður á tekjutíundir. Þegar ríkisstjórnin stendur saman um aðgerðir sem tryggja öllum tekjutíundum aukinn kaupmátt, meira að segja í heimskreppunni, þá finnst mér ganga vel. Mér finnst hv. þingmaður skauta léttilega fram hjá þessum staðreyndum.

Samfylkingin hló að því og gerði lítið úr því þegar við breyttum tekjusköttum fyrir nokkrum árum og taldi það í pítsusneiðum og pítsukössum, sagði að það munaði ekki um 10.000 kall á mánuði fyrir venjuleg heimili, það myndi ekki skipta sköpum. En þegar við erum eingöngu að viðhalda verðlagi fyrir krónutöluskatta ríkisins, sem ella eru að gefa eftir og rýrna að verðgildi, sem í raun og veru er til þess fallið að auka þensluna, þá stígur Samfylkingin fram og segir að verið sé að vega að heimilunum.

Setjum þetta aðeins í samhengi. Við lækkuðum skatta sem nemur um 10.000 kr. á mánuði en þegar krónutöluskattarnir hækka, sem getur kannski skilað um 1.000 kr. aukningu, þá koma þau hingað upp og segja: Hér er verið að ráðast gegn veikustu heimilunum í landinu. Staðreyndin er sú að við höfum verið með aðgerðir nákvæmlega fyrir þessa hópa, með hækkun bóta almannatrygginga, með sérstökum barnabótaauka, með aðgerðum í húsnæðismálum og aftur núna með viðbótarhækkun í almannatryggingum til þess einmitt að ná utan um þá hópa sem þau segjast hafa mestar áhyggjur af.

Þannig að: Já, ég held að við höfum náð vel saman um aðgerðir. Við erum sameiginlega ánægð með árangurinn og það þarf enginn að hafa áhyggjur (Forseti hringir.) af því að í stjórninni sé ekki samstaða um fjárlagaáherslurnar.