Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Þetta verður náttúrlega að vera skýrt því að í fjárlagafrumvarpinu segir að engin aðhaldskrafa sé gerð á bótakerfi almannatrygginga og atvinnuleysis, dómstóla, sjúkratryggingar, heilbrigðis- og öldrunarstofnanir. Heilbrigðisstofnanir eru það sem er utan sjúkrahúsa. Það hefur alltaf verið þannig í umræðunni, það hefur verið mjög skýrt og skiljanlegt. Aðhald þýðir líka ákveðna hluti. Það þýðir ekki hliðrun á einhverjum fjárfestingum o.s.frv. Það er það sem við höfum alltaf rætt í fjárlögum sem aðhaldskröfu og aðhaldsaðgerðir sem þurfi einhvern veginn að bregðast við. Það er ekki bara hliðrun á einhverjum byggingarframkvæmdum. Það er rosalega nauðsynlegt að frumvarpið sé gagnsætt og aðgengilegt fyrir okkur á þinginu og fyrir umsagnaraðila. Að sjálfsögðu bregðast umsagnaraðilar við 4 milljarða kr. aðhaldskröfu á þetta málefnasvið sem aðhaldskröfu. Þeir hugsa ekki: Æ, við ætlum ekki að byggja húsið sem við erum að byggja á næsta ári heldur á þarnæsta ári. Það er ekki það sem að þýðir. Þess vegna erum við óánægð með fjárlagafrumvarpið þegar ekki er aðgengilegt hvað stjórnvöld ætla að gera.

Að lokum langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Á í alvörunni að selja Íslandsbanka á næsta ári þegar við vitum ekki einu sinni hver afdrif síðustu sölu voru? Af hverju ættum við í rauninni að bera eitthvert traust til þess að núverandi fjármálaráðherra selji bankann, afganginn af bankanum? Sama hver niðurstaða Ríkisendurskoðunar verður, í raun og veru. Við getum ekki horft fram hjá því hvernig málin hafa þróast hingað til, bæði í fyrstu og annarri sölunni.