Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Ég held að svarið við þessari spurningu liggi ekki síst í skýrslu Katrínar Ólafsdóttur sem hún skilaði til þjóðhagsráðs þar sem hún fer yfir það hvernig við höfum á undanförnum árum, jú, vissulega tekið út mikinn kaupmátt og ívið meiri kaupmátt en nágrannaþjóðir en við höfum gert það með töluvert meiri nafnlaunahækkunum og búum við viðvarandi hærra verðbólgustig og vaxtastig heldur en nágrannaþjóðirnar. Þegar við hækkum laun að jafnaði jafn mikið eins og gert hefur verið — á milli 2019 og 2021 þá hækkuðu laun á sveitarstjórnarstiginu um 25% og 19% í opinbera geiranum, hjá ríkinu, 16% á almenna markaðnum — þá held ég að einfalda svarið við þessari spurningu séu launahækkanir. Það er ekki verið að auka útgjöld ríkisins í fjárfestingar um það sem ríður hér baggamuninn. Það er ekki verið að bæta við umfang í neinni líkingu við það sem er að gerast á launaliðnum. Við þurfum dálítið að horfast í augu við það hvort við getum náð meiri árangri, sem ég trúi, með því að vera með hófstilltari launabreytingar yfir tímabil en sama eða jafnvel meiri kaupmátt vegna þess að það muni skila lægri vöxtum og meiri stöðugleiki í verðlagi. En meðan laun hækka svona mikið og meðan við erum með alla þessa ríkisstarfsmenn þá mun það birtast á útgjaldahlið ríkissjóðs.