Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:24]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Umræddir hvalrekaskattar eru þekkt fyrirbrigði þessa dagana. Þetta snýst um að sníða af öfgar í samfélaginu sem skapast út af aðstæðum sem enginn ræður við. Það er fullkomlega eðlilegt á tímum sem þessum að slíkar leiðir séu farnar ef það er vilji til að standa undir einhvers konar samfélagssáttmála, vegna þess að staðreyndin er sú að þetta getur grafið undan sér til lengri tíma ef ekkert er við þessu gert. Það mun kosta ríkissjóð meira til lengri tíma ef ekki er stutt við ákveðna hópa.

Það sem ég hef mestar áhyggjur af þessu tengt, sem hv. þingmaður nefndi, er umrædd innviðaskuld. Við erum enn þá að vinna okkur út úr síðasta tímabili, innviðaátakið svokallaða skilaði ekki nægilegum árangri, og svo um leið og vandi kemur upp í hagkerfinu þá er hún það fyrsta sem fer hjá hæstv. fjármálaráðherra þrátt fyrir að við vitum að það er arðbært að skuldsetja sig fyrir innviðum. Við sjáum hér fram á skuldsetningartölur upp á 30% af vergri landsframleiðslu og ég vil að það komi hér fram að þetta er eitt lægsta skuldsetningarstig ríkissjóðs á heimsvísu. Auðvitað er það jákvætt en við erum að detta í tölur þar sem við nánast getum ekki skuldað minna vegna þess að á Íslandi, þar sem við rekum okkar eigin gjaldmiðil, þarf ríkið að halda uppi innlendum skuldabréfamarkaði, gefa út ríkisbréf í innlendu og til þess þurfa skuldir að vera svona 20–25%.

En varðandi hvað þetta getur skilað, sértækar aðgerðir gætu skilað hátt í 15 milljörðum, hv. þingmaður. En svo snýst þetta allt um forgangsröðun og hvar þú leggur álag á móti, því að það er búið að taka 50 milljarða kr. út úr velferðarkerfinu okkar með því að fara í almennar skattalækkanir og telja fólki trú um að það sé gott fyrir þeirra ráðstöfunartekjur þegar verðbólga eykst á sama tíma, og grunnþjónustan brotnar niður.